Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hefst á ný fimmtudaginn 6. ágúst. Bandaríski flugherinn annast verkefnið að þessu sinni í boði íslenskra stjórnvalda en í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun NATO fyrir Ísland, samkvæmt upplýsingum Varnarmálastofnunar.
Alls munu um 140 liðsmenn bandaríska flughersins taka þátt í verkefninu, sem verður nokkru umfangsmeira en verkefni Norðmanna og Dana hér á landi fyrr á árinu. Bandaríkjamenn koma til landsins með fjórar F-15 orrustuþotur, auk eldsneytisflugvélar og munu halda uppi loftrýmisgæslu í þrjár vikur.
Bandaríkjamenn bera kostnað af gæslunni að öðru leyti en því að Íslendingar greiða kostnað við uppihald mannaflans á meðan á verkefninu stendur.