Ofgreiddur lífeyrir 3 milljarðar

Lífeyrisþegar fengu um þrjá milljarða króna greidda frá Tryggingastofnun árið 2008 umfram rétt og verða þeir krafðir um endurgreiðslu. Fyrst og fremst stafar ofgreiðslan af misræmi í framtöldum fjármagnstekjum. Um 9.000 lífeyrisþegar eiga inni um 700 milljónir króna hjá Tryggingastofnun.

Tryggingastofnun hefur lokið árlegum endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra bóta lífeyrisþega fyrir árið 2008. Við endurreikninginn eru bætur sem lífeyrisþegum hafa verið greiddar á bótaárinu bornar saman við bætur sem þeir áttu rétt á að fá samkvæmt skattframtali ársins með samkeyrslu kerfa Tryggingastofnunar og ríkisskattstjóra.

Mismunur á greiddum bótum og réttum bótum er gerður upp þannig að þeir sem eiga inni bætur fá þær greiddar um mánaðamótin en þeir sem hafa fengið greitt umfram rétt eru krafðir um endurgreiðslu í kjölfarið. Lífeyrisþegum verður á næstu dögum sent bréf með niðurstöðunum og veitt ráðrúm til andmæla.

Athygli er vakin á því að sömu upplýsingar verða aðgengilegar á þjónustuvef Tryggingastofnunar, tryggur.is, eftir kl. 17:00 miðvikudaginn 29. júlí.

Rúmir 3 milljarðar ofgreiddir

Heildarfjöldi lífeyrisþega er tæplega 46 þúsund, þar af eru um 16 þúsund örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar og 30 þúsund ellilífeyrisþegar. Heildarfjárhæð tekjutengdra bóta árið 2008 nam um 42 milljörðum króna. Greiðslur umfram rétt voru 4,1 milljarður, en vangreiddar voru um 700 milljónir króna og eiga um 9000 lífeyrisþegar inneign hjá Tryggingastofnun, sem greidd verður út á næstu dögum.

Í réttindakerfi lífeyristrygginga eru miklar tengingar við samtímatekjur og aðstæður lífeyrisþega. Kerfið er mjög kvikt og því eru einhver frávik í bótagreiðslum algeng. Við uppgjörið kom í ljós að tæp 70% lífeyrisþega, um 32 þúsund manns, fengu greiddar bætur innan eðlilegra frávika.

Óviðunandi frávik vegna fjármagnstekna

Tryggingastofnun fær upplýsingar um tekjur lífeyrisþega hjá ríkisskattstjóra en hefur einnig lagt áherslu á að efla samtímaeftirlit með tekjum til þess að tryggja betur réttar bótagreiðslur. Árið 2008 tókst með ásættanlegum hætti að áætla atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur lífeyrisþega. Frávik vegna  fjármagnstekna voru hins vegar óviðunandi. Tryggingastofnun sannreynir upplýsingar lífeyrisþega um fjármagnstekjur með samanburði við upplýsingar frá ríkisskattstjóra, en gríðarleg hækkun varð á framtöldum fjármagnstekjum á milli ára, sem skýrist ef til vill af því að nú fengu skattayfirvöld þessar upplýsingar í fyrsta sinn til forskráningar frá bankastofnunum. Tæpir 3 milljarðar af greiðslum umfram rétt stafa af þessu misræmi.

Tryggingastofnun brýnir lífeyrisþega til að vanda tekjuáætlanir sínar því eftir þeim eru bætur greiddar. Með vandaðri tekjuáætlun sé hægt að komast hjá óþægindum vegna umframgreiðslna.

Vefur Tryggingastofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert