Þyrluþjónustan til bjargar

Þyrla Þyrluþjónustunnar sótti vatn í Kleifarvatn og dreifði á gróðureldana.
Þyrla Þyrluþjónustunnar sótti vatn í Kleifarvatn og dreifði á gróðureldana. mbl.is/Árni Sæberg

Slökkviliði Grindavíkur barst óvænt hjálp við slökkvistarf á heiðinni austan við Kleifarvatn eftir hádegið. Starfsmenn Þyrluþjónustunnar eru að búa sig undir að fara í loftið og verður sérstök fata notuð til að freista þess að slökkva gróðureldana. Vatn verður sótt í Kleifarvatn og ausið yfir eldinn.

Þyrluþjónustan býður fram krafta sína án endurgjalds og aðallega vegna þeirrar umræðu að Landhelgisgæsla Íslands geti ekki sinnt útkallinu sökum fjárskorts. Sigurður Pálmason, framkvæmdastjóri Þyrluþjónustunnar, segir að fyrirtækið eigi búnaðinn til og sjái sér skylt að hjálpa til. "Það virðist ekki vera hægt að kalla til einkaaðila þegar svona ber undir, en það hefur verið hægt að éta af fjármunum Gæslunnar við sum tilfelli en önnur ekki. Okkur þykir það afar skrítið."

Eldurinn brennur í mjög þykkum mosa í um 420 metra hæð. Um þrír kílómetrar eru í vatn. Í nótt aðstoðaði björgunarsveit slökkviliðsmennina og flutti til þeirra vatnsbirgðir og búnað. Hver ferð björgunarsveitarinnar tók um þrjá klukkutíma.

Slökkvilið Grindavíkur hefur ítrekað óskað eftir aðstoð Gæslunnar. Halldór Nellett, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, segir Landhelgisgæsluna komna töluvert framyfir áætlun um flugtíma þyrlanna sem byggist á fjárveitingu. Þar eð gróðureldarnir austan við Kleifarvatn ógna hvorki mannvirkjum né mannslífum ákvað Gæslan að bíða átekta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert