Væringar í bæjarstjórn

Ólga er í bæjarmálunum á Álftanesi.
Ólga er í bæjarmálunum á Álftanesi. Ómar Óskarsson

Á Álftanesi gætir nokkurrar ólgu í bæjarstjórnarmálum. Mbl.is hefur heimildir fyrir því að Margrét Jónsdóttir bæjarfulltrúi Á-lista hafi sagt sig frá Álftaneshreyfingunni sem er í meirihluta bæjarstjórnar vegna þess að hún geti ekki sætt sig við endurkomu félaga hennar á Á-lista, Kristjáns Sveinbjörnssonar í bæjarstjórnina.

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því að Kristján hafi rétt á að sitja sem kjörinn bæjarfulltrúi til loka kjörtímabilsins 2010 samkvæmt úrskurði samgönguráðuneytisins.

Kristján dró sig í hlé sem bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar í desember síðast liðinn. Sagði hann í bréfi sem hann sendi bæjarstjórn að þannig vonaðist hann til þess að friður skapaðist um störf bæjarstjórnar á Álftanesi.

Þremur mánuðum síðar tilkynnti Kristján að hann hefði ákveðið að taka sæti í bæjarstjórn að nýju þar sem sá friður sem hann vænti hefði ekki orðið. Því hafnaði bæjarstjórnin og þann úrskurð kærði Kristján til ráðuneytisins sem úrskurðaði honum í vil.

Vill ekki staðfesta fregnina

Í samtali við mbl.is sagðist Margrét Jónsdóttir ekki geta staðfest að hún hefði sagt sig úr Álftaneshreyfingunni og sagðist mundu senda frá sér fréttatilkynningu um málið.

Samkvæmt heimildum mbl.is mun Margrét hyggjast starfa áfram sem bæjarfulltrúi og styðja þau mál sem hún telur vera í þágu Álftnesinga.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert