Vill upplýsingar um rétt atvinnulausrar konu

Róbert Ragnar Spanó, settur umboðsmaður Alþingis.
Róbert Ragnar Spanó, settur umboðsmaður Alþingis.

Umboðsmaður Alþingis ritaði forstjóra Vinnumálastofnunar bréf þann 22. júlí síðastliðinn og óskaði eftir upplýsingum og skýringum á nokkrum atriðum varðandi greiðslu atvinnuleysisbóta. Tilefni fyrirspurnarinnar var nýleg frétt þar sem fjallað var um aðstæður atvinnulausrar konu. Síðustu greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar hafði verið frestað með vísan til þess að hún hafði fengið greidd mæðralaun. 

Í fréttinni kom fram að slík laun væru ekki frádráttarbær. Fréttin var tilefni þess að umboðsmaður ákvað að kanna nánar hvort ástæða væri til að hann tæki málið að eigin frumkvæði til  athugunar.

Í bréfinu til forstjóra Vinnumálastofnunar er óskað eftir að Vinnumálastofnun veiti umboðsmanni upplýsingar og skýringar um eftirtalin atriði:

1. Hvort það sé rétt sem kemur fram í fréttinni að það hafi orðið frestun á greiðslu atvinnuleysisbóta til umræddrar konu og annarra sem voru í sömu sporum og hún um mánaðarmótin júní/júlí 2009?

2. Hversu margir einstaklingar fengu ekki greiddar út atvinnuleysisbætur á réttum tíma um mánaðarmótin júní/júlí 2009 vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar um frestun greiðslu bótanna? Hvenær bárust greiðslurnar að lokum til viðkomandi einstaklinga?

3. Hvaða lagagrundvöllur og sjónarmið lá að baki þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fresta að greiða út atvinnuleysisbætur á réttum tíma, bæði í tilviki umræddrar konu og þeirra sem voru í sömu sporum og hún?

4. Hvort ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fresta greiðslu atvinnuleysisbóta hafi verið stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993? Þá er óskað eftir upplýsingum um málsmeðferð stofnunarinnar í þessu sambandi, þ.e. hvort hlutaðeigandi hafi verið tilkynnt fyrirfram um umrædda ákvörðun, verið gefinn kostur á að tjá sig um hana og svo frv.

Umboðsmaður hefur óskað eftir því að honum berist svar fyrir 1. september næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert