46 staðfest A(H1N1) smit

mbl.is/Sverrir

Greinst hafa 12 tilfelli inflúensunnar A (H1N1) hér á landi undanfarna tvo sólarhringa og þar með eru staðfest tilfelli orðin alls 46 á Íslandi frá því í maímánuði síðastliðnum.

Þeir sem síðast greindust eru á aldrinum 14-56 ára. Einn er útlendur ferðamaður, hitt Íslendingar sem annað hvort komu erlendis frá (fimm) eða smituðust hér heima (sex). Enginn veiktist alvarlega og allir eru á batavegi.

Engar skorður settar varðandi samkomuhald og skólahald með eðlilegum hætti

Einkenni inflúensunnar hérlendis eru væg og því engin áform uppi um það af opinberri hálfu að reisa skorður við samkomuhaldi af neinu tagi. Að óbreyttu hefst líka skólastarf í landinu með eðlilegum hætti í lok sumars.

Fólk sem finnur til inflúensueinkenna er hvatt til að halda sig heima í eina viku frá upphafi veikinda eða þar til yfirgnæfandi líkur eru á að það geti ekki smitað aðra. Ekki þykir ástæða til að setja þá í sóttkví sem umgengist hafa fólk með inflúensu en eru einkennalausir sjálfir.

1.049 látnir úr flensunni

Hreinlæti í daglegu lífi er áhrifaríkasta ráðstöfun almennings til að forðast inflúensusmit, þ.e. handþvottur með sápu eða spritti. Ekki er ráðlagt að fólk almennt noti andlitsgrímur til að verjast smiti en hins vegar er rétt að heilbrigðisstarfsmenn noti hanska og grímur þegar þeir annast sjúklinga sem bera einkenni inflúensu, að því er segir í tilkynningu.

Staðfest tilfelli A (H1N1) í heiminum eru nú hátt í 170.000, þar af yfir 21.000 í ríkjum ESB og EFTA. Dauðsföll eru alls 1.049, þar af 37 í Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert