Átta ára stúlka hætt komin

Hættulegt getur verið fyrir börn að leika sér í leiktækjum …
Hættulegt getur verið fyrir börn að leika sér í leiktækjum með hjálm á höfði. Friðrik Tryggvason

Átta ára stúlka var hætt komin í gær þegar reiðhjólahjálmur hennar festist í klifurgrind. Stúlkan hafði hjólað inn á leiksvæði Engidalsskóla í gær ásamt vinkonu sinni. Þær voru að leik í klifurgrind þegar stúlkan smeygði sér niður á milli rimla og við það festist hjálmurinn sem var of stór fyrir bilið.

Stúlkan hékk í hjálminum í einhverjar sekúndur þar til hún gat losað sig. Á meðan gat hún hvorki talað né andað. Að lokum tókst henni að losa hjálminn af sér, sem var of rúmur á höfði hennar og má segja að það hafi bjargað henni. Stúlkan hlaut sýnilega áverka og er enn að jafna sig eftir áfallið.

Hér á landi eru skráð 9 tilfelli frá árinu 1992 þar sem litlu munaði að illa færi þegar barn festist í reiðhjólahjálmi í leiktæki. 

Forvarnarhúsið leggur mikla áherslu á að foreldrar séu meðvitaðir um þessa hættu og ættu aldrei að leyfa börnum yngri en sex ára að fara ein út að hjóla. Þá ber fólki að fylgjast sérstaklega vel með börnum sem hjóla í kringum leiktæki. Forvarnarhúsið leggur jafnframt áherslu á að foreldrar brýni fyrir börnum að vera aldrei með hjálm í leiktækjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert