Fleiri þingmenn á móti

mbl.is/Ómar

Æ fleiri þingmenn setja sig á móti Icesave-samkomulaginu og samkvæmt heimildum Bloomberg fréttastofunnar er líklegt að 34 þingmenn greiði atkvæði gegn tillögunni. Fyrir mánuði var talið að 33 þingmenn af 63 væru á móti. Fjármálaráðherra, Steingrímu J. Sigfússon, segist ekki vera að fara á taugum vegna þessa í samtali við Bloomberg.

Hann segir alla samninga um Icesave slæma og að málið allt lykti. Það breyti því hins vegar ekki að það verður að leysa það. 

Samkvæmt Bloomberg fær Ísland ekki greidd út lán á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins né frá hinum norrænu ríkjunum fyrr en búið er að ganga frá samkomulagi við Breta og Hollendinga vegna Icesave.

Samkvæmt Bloomberg munu allir 29 stjórnarandstöðuþingmennirnir greiða atkvæði gegn Icesave-samkomulaginu. Fimm af 14 þingmönnum VG hafa efasemdir um samkomulagið en allir þingmenn Samfylkingar, 20 talsins, munu greiða atkvæði með. 

Steingrímur J. segir ómögulegt að segja til hvenær Icesave umræðunni ljúki á Alþingi en þriðja og síðasta umræðan fer fram í næstu viku. Stjórnarandstaðan hefur boðað málþóf svo umræðan getur tekið langan tíma. Hann segir að sumarþingið muni standa þangað til búið er að leysa þetta mál.

David Riley, sérfræðingur hjá alþjóðlega matsfyrirtækinu Fitch segir að stofnunin muni ekki breyta neikvæðum horfum Íslands fyrr en Icesave deilan leysist. Bæði Moody's og Standard and Poor’s eru með ríkissjóð í neikvæðum horfum. Að sögn Steingríms eiga stjórnvöld nú í viðræðum við matsfyrirtækin vegna þessa.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka