Fjölsóttar hátíðir afkomenda Íslendinga

Vestur-Íslendingar og afkomendur þeirra fjölmenna á Íslendingadaga í Mountain og …
Vestur-Íslendingar og afkomendur þeirra fjölmenna á Íslendingadaga í Mountain og í Gimli. Árni Sæberg

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra verður aðalræðumaður Íslendingadaganna í Mountain í Norður-Dakota og á Gimli í Manitoba. Kór Grafarvogskirkju tekur einnig þátt í hátíðarhöldunum. Tveir hópar Íslendinga, samtals 86 manns, verða á slóðum Vestur-Íslendinga í skipulögðum hópferðum og taka þátt í Íslendingadögunum.

Íslendingadagurinn verður haldinn í 110. skipti í Mountain í Norður-Dakota 1. ágúst næstkomandi. Í bænum búa um 100 manns en yfir fimm þúsund manns sækja hátíðina ár hvert. Hátíðin hefst á föstudaginn kemur og lýkur á sunnudag. Þetta er stærsta hátíð fólks af íslenskum uppruna í Bandaríkjunum. Össur mun flytja þar hátíðarræðu á laugardag auk þess sem verður kórsöngur.

Íslendingadagurinn verður haldinn hátíðlegur í Gimli í Winnipeg í Kanada mánudaginn 3. ágúst. Talið er að að minnsta kosti 50 þúsund manns hafi sótt þessa hátíð undanfarin ár. Báðar hátíðirnar eiga það sameiginlegt að farnar eru skrúðgöngur og rifjuð upp saga og menning Vestur-Íslendinga.

Jónas Þór sagnfræðingur sagði að 51 Íslendingur fari á Íslendingaslóðir á vegum Vesturheims sf. og Þjóðræknisfélagsins um næstu mánaðamót. Jónas kvaðst mundi fara með sjö hópa til Vesturheims í ár en í ágúst í fyrra hafði hann bókað tólf hópa. Efnahagssamdrátturinn hefur heldur dregið úr fjölda þeirra sem fara vestur.  Á móti kemur að hann flutti hingað á annað hundrað Vestur-Íslendinga í sumar.

Bændaferðir skipuleggja einnig ferð á Íslendingaslóðir í Kanada um næstu mánaðamót. Hugrún Hannesdóttir hjá Bændaferðum sagði að í hópnum þeirra verði 35 manns að þessu sinni. Hún sagði alltaf mikinn áhuga á Íslendingaslóðum í Kanada. Fólki þyki mikil  lífsreynsla að koma á þessar slóðir og hitta afkomendur Vesturfara í 4. og 5. lið, sem jafnvel tala íslensku.

Össur Skarphéðinsson flytur hátíðarræður á Íslendingadögum vestanhafs um næstu helgi.
Össur Skarphéðinsson flytur hátíðarræður á Íslendingadögum vestanhafs um næstu helgi. mbl.is/Dagur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert