Þyrlan skipti sköpum

Slökkvistarfi á heiðinni austan við Kleifarvatn lauk síðdegis í gær, en slökkvilið Grindavíkur hafði þá barist við gróðureld í tæpan sólarhring – með hléum. Slökkvilið Grindavíkur naut aðstoðar Þyrluþjónustunnar, en með sérstakri fötu var hægt að ausa vatni úr Kleifarvatni yfir eldinn.

Um einn og hálfan tíma tók að slökkva eldinn með aðstoð þyrlunnar. Farið var á annan tug ferða með sjö til átta þúsund lítra af vatni yfir svæðið. Eldar kviknuðu fyrst á svæðinu síðastliðinn föstudag, þar sem erfiðlega gekk að slökkva í glóðinni kviknaði ætíð eldur á nýjan leik.

Umrætt svæði er í 420 metra hæð yfir sjó og uppi á fjalli. Leiðin þangað er mjög erfið yfirferðar og urðu slökkviliðsmenn að ganga í kargahrauni og þykkum mosa, sem sums staðar nær upp að hnjám. Um þrír kílómetrar eru í vatn og aðstoðaði björgunarsveit slökkviliðsmennina og flutti til þeirra vatnsbirgðir og búnað. Hver ferð björgunarsveitarinnar tók um þrjá klukkutíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert