Liðsmenn Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu eru á leið upp á Sprengisand til að bjarga tólf tonna Man trukk sem er fastur í sandbleytu í Rauðá í Vonarskarði. Bíllinn festist í ánni í gær og flutti hálendiseftirlit Landsbjargar fólkið, sem var á bílnum og er útlent, í Nýjadal.
Svanur S. Lárusson, formaður Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, sagði að fjórir liðsmenn sveitarinnar hafi farið í morgun á tveimur bílum, Unimog torfærubíl og Man vörubíl með drifi á öllum hjólum. Tveir jeppar náðu ekki að losa trukkinn í gær og var talin þörf á að fá þyngri bíla til verksins.
Aðstoðar Flugbjörgunarsveitarinnar var óskað í gærkvöldi. Frá Hellu í Vonarskarð er um þriggja og hálfrar klukkustundar akstur.
Svanur sagði að Flugbjörgunarsveitin sé oft beðin um að aðstoða erlenda ferðamenn sem festa bíla sína. Flestir þeirra eru með tryggingu sem greiðir fyrir leit og björgun og aðrir bjóða greiðslu fyrir hjálpina.