Þrátt fyrir að framkvæmd síðustu alþingiskosninga hafi einkennst af gagnsæi og trausti almennings til vinnubragða kosningayfirvalda má ýmislegt betur fara, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE.
Skýrsla stofnunarinnar, Iceland: Early Parliamentary Elections, sem er aðgengileg á vefnum, telur bæði upp það sem þykir með ágætum og svo hitt sem þurfi athugunar við.
Fundið er að misræmi í vægi atkvæða, einkum á milli Norðvestur- og Suðvesturkjördæmis, sem veki spurningar um jafnræði kjósenda. Vísað er til tilmæla Feneyjanefndar Evrópuráðsins um að misræmi í atkvæðavægi skuli ekki vera umfram 10% – og alls ekki yfir 15% – nema í sérstökum tilvikum, svo sem til varnar afmörkuðum minnihlutahópum.
Í kosningunum í maí hafi hins vegar verið samanlagt um 50% fleiri skráðir kjósendur á bak við hvert þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og í Suðvesturkjördæmi en í hinum kjördæmunum þremur. Munurinn á milli Suðvestur- og Norðvesturkjördæmis hafi verið hvað mestur, eða um 100%.
Tryggir fjölda valkosta
Umgjörðin um skráningu flokka og frambjóðenda er sögð tryggja fjölbreytt úrval valkosta, þar með talið tveggja framboða sem buðu fram með litlum fyrirvara (þ.e. Lýðræðishreyfingin og Borgarahreyfingin).Fjölmiðlum, hvort sem þeir eru opinberir eða í einkaeigu, er lýst sem frjálsum. Hins vegar megi styrkja ýmislegt í regluverkinu um umfjöllun opinberra miðla, svo sem í tengslum við 10 mínútna ókeypis útsendingartíma Ríkissjónvarpsins til handa framboðum fyrir kosningar.
Fyrir kosningarnar í maí hafi fjögur af framboðunum sjö hafnað boðinu, enda ekki talið það borga sig.
RÚV hafi svo fallið frá boðinu þvert á vilja forystumanna Lýðræðishreyfingarinnar og Borgarahreyfingarinnar, sem hafi álitið þá ákvörðun skerða svigrúm þeirra til að koma áherslum sínum á framfæri.
Með þetta í huga reifa eftirlitsmenn ÖSE möguleikann á að útdeiling ofangreinds útsendingartíma verði tekin fyrir í lagasetningu.
Jafnframt er lagt til að útvarpsréttarnefnd fái aukið svigrúm til eftirlits með kosningaumfjöllun og heimild til að smíða reglur um hvernig staðið skuli að henni.
Áhyggjur af samþjöppun
Þeir víkja jafnframt að áhyggjum af samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði. Í ljósi fámennis og smæðar auglýsingamarkaðarins sé þeim mun brýnna að fjölmiðar í eigu fjölmiðlasamsteypa stuðli að ólíkum sjónarmiðum í dagskránni.Því gæti lagasetning sem takmarki eignarhald komið til greina á ný.
Kosningayfirvöld eru sögð hafa staðið sig vel en að tilefni sé til að styrkja hlutverk landskjörstjórnar. Þá sé tímabært að endurskoða fyrirkomulag um utankjörstaðaatkvæði og gefa landskjörstjórn aukið vald yfir yfirkjörstjórn til að tryggja aukna samhæfingu á öllum stigum.
Einnig skorti samhæft og miðlægt tölvukerfi fyrir skrásetningu úrslita.