Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að tveir karlmenn á þrítugsaldri skulu sitja í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að fjársvikamáli. Báðum er gert að vera í einangrun á meðan þeir eru í gæsluvarðhaldi. Annar mannanna hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 23. júlí og er honum gert að vera í gæsluvarðhaldi til 4. ágúst.
Hinn maðurinn var handtekinn á þriðjudag í tengslum við sama mál og er honum gert að sitja í gæsluvarðhaldi til 5. ágúst.
Alls hafa fjórir karlmenn verið handteknir í tengslum við umfangsmikið fjársvikamál. Talið er að svikin nemi tugum milljóna króna og tengist Íbúðalánasjóði.
Í dómi héraðsdóms kemur fram að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra telji tilefni til að ítreka að um sé að ræða umfangsmikið mál með umtalsverða fjármuni sem virðist vera þaulskipulagt þar sem fjölmargar ríkisstofnanir séu blekktar og fjármunum náð með sviksamri háttsemi. Þar sem loku sé ekki fyrir það skotið að fjármunirnir séu í vörslu mannanna eða öðrum þeim tengdum þyki ljóst að gangi þeir lausir geti þeir komið þeim fjármunum undan eða komið því í verk með öðrum hætti.