„Ég held að öllum eigi að vera heildarsamhengi hlutanna nokkuð ljóst. Það sem er víst er það, að af okkar hálfu hefur tekist að ná öllu fram og gera allt það sem til var ætlast af okkur. Ég held að ég geti fullyrt það, að það er samkomulag milli okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að við höfum náð að koma öllum hlutum á þann stað sem ætlast var til og hugsað var sem forsendur þess að endurskoðun gæti farið fram,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, inntur eftir því hvort það, að ekki sé búið að afgreiða Icesave á Alþingi, tefji afgreiðslu lána hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF).
Fulltrúi sjóðsins hér á landi, Franek Rozwadowski var ekki tilbúinn til að staðfesta neitt í gær og segir niðurstöðu vonandi að vænta síðar í vikunni. Haft var eftir honum í Fréttablaðinu síðastliðinn laugardag að málið hangi á því að gengið sé frá lánsloforðum Norðurlandanna.
„Í lánasamningnum sjálfum við Norðurlönd eru ekki ákvæði sem tengjast Icesave en hins vegar lögðu samningamenn Norðurlanda ríka áherslu á það frá upphafi að þeir teldu mikils um vert að Íslendingar virtu sínar alþjóðlegu skuldbindingar, einkum gagnvart innstæðutryggingum,“ segir Jón Sigurðsson, formaður samninganefndar Íslands gagnvart Norðurlöndunum. Sama svar fékkst hjá norsku og sænsku fjármálaráðuneytunum.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.