Næsta laugardag, fyrsta ágúst, tekur gildi launalækkun hjá skrifstofustjórum, samkvæmt ákvörðun kjararáðs frá því í gær.
Skrifstofustjórum er samkvæmt þessu skipt í þrjá flokka. Þá sem eru staðgenglar ráðuneytisstjóra, með tæpar 660.000 krónur á mánuði, þá sem stýra skrifstofum og heyra beint undir ráðuneytisstjóra, með um 638.000 krónur á mánuði og að lokum þá sem ekki stýra skrifstofum og heyra undir annan skrifstofustjóra eða sviðsstjóra, með um 617.000 krónur á mánuði.
Launin eru miðuð við fullt starf og þannig ákveðin að ekki komi til frekari greiðslna nema það sé sérstaklega ákveðið. Að sögn Guðrúnar Zoëga, formanns kjararáðs, þýðir þetta að laun skrifstofustjóra lækka almennt um fimm til átta prósent, þótt frávik frá því geti verið í báðar áttir, enda störf mismunandi skrifstofustjóra ólík.