„Róttækar breytingar“

„Þetta eru mjög róttækar breytingar,“ segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra, varðandi þær hagræðingartillögur sem hún kynnti lögreglustjórum og stjórn sambands lögreglumanna í dómsmálaráðuneytinu í dag. Ein af tillögunum er að eitt lögreglulið verði í landinu undir stjórn lögreglustjóra á landsvísu.

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra segir að þriggja manna starfshópur, sem hafi farið yfir og kynnt sér starfsemi lögreglunnar, hafi lagt til að uppbygging lögregluembættanna í landinu verði breytt. Hópurinn hafi í raun sagt að þetta væri nauðsynlegt svo unnt væri að hagræða, t.d. að draga úr stjórnunarkostnaði og minnka yfirbygginguna.

„Hópurinn kom með tvær tillögur. Það sem var sammerkt með þessum tillögum var að það væri líklegast óhjákvæmilegt að stækka lögregluumdæmi landsins,“ segir Ragna.

„Þá er það spurningin hvernig fer með miðlæga starfsemi lögreglu og stoðþjónustu. Það sem hópurinn lagði til í því dæmi var annars vegar það að deila henni út á embætti landsins. Eða þá, sem að mér fannst nú skynsamleg hugmynd, að það yrði í rauninni eitt lögreglulið hérna í þessu landi. Lögreglan starfaði í umdæmum undir stjórn umdæmisstjóra. En þeir störfuðu aftur undir stjórn lögreglustjóra á landsvísu.“

 Að sögn Rögnu mun starfshópurinn halda áfram sínum störfum ásamt fulltrúa frá landsambandi lögreglumanna og fulltrúi frá lögreglustjórafélagi Íslands. Ráðherra vonast til að starfshópurinn skili greinargerð eða drög að frumvarpi í september. Haft verði samráð við sveitarfélögin í landinu og hlustað eftir sjónarmiðum starfsmanna embættanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert