Vonast eftir láni í lok ágúst

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Vonast er til að stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) geti tekið málefni Íslands til endurskoðunar í lok ágúst eða í byrjun september og þá berist annar hluti 2,1 milljarða Bandaríkjadala láns sjóðsins og fyrsti fjórðungur 2,5 milljarða dala láns Norðurlandanna til styrkingar gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Þar kemur fram að AGS hefur staðreynt að fjármögnun efnahagsáætlunarinnar með greiðslum frá utanaðkomandi aðilum, m.a. Norðurlöndunum, hafi ekki verið tryggð og ákveðið hafi verið að fresta því að taka ekki fyrir endurskoðun efnahagsáætlunarinnar líkt og stefnt var að. Segir jafnframt í tilkynningu forsætisráðuneytisins að gjaldeyrisstaða Seðlabanka Íslands sé góð og þetta muni því ekki hafa áhrif þar á.

Þar segir að undanfarna mánuði hafi íslensk stjórnvöld unnið ötullega að fyrstu ársfjórðungslegu endurskoðun efnahagsáætlunar sinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Kynna mótun stefnu um gjaldeyrishöftin á morgun

„Mikilvæg skref hafa verið stigin á undanförnum vikum. Meðal þeirra má nefna: samþykkt ríkisstjórnar á áætlun í ríkisfjármálum til næstu ára, samninga við skilanefndir gömlu bankanna, áætlun um endurfjármögnun bankakerfisins, undirritun samninga um lán frá Norðurlöndum, undirritun samninga vegna Icesave reikninga við Breta og Hollendinga með fyrirvara um samþykki Alþingis, áætlun um mótun stefnu um gjaldeyrishöftin sem kynnt verður á morgun, 31. júlí."

Öðrum markmiðum sem lagt var upp með hefur einnig verið náð. Með þessum framgangi við endurreisn efnahagslífs á Íslandi hafa íslensk stjórnvöld, samkvæmt upplýsingum sem borist hafa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, uppfyllt skilyrði fyrir endurskoðun efnahagsáætlunarinnar, að því er segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Lánin frá Norðurlöndum verða að vera tryggð áður en áætlun AGS er endurskoðuð

„Þrátt fyrir það hefur framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ákveðið að taka ekki fyrir endurskoðun efnahagsáætlunarinnar áður en hún fer í tveggja vikna sumarleyfi þann 7. ágúst líkt og að var stefnt. Sjóðurinn hefur staðreynt að fjármögnun efnahagsáætlunarinnar með greiðslum frá utanaðkomandi aðilum, m.a. Norðurlöndunum, hafi ekki verið tryggð.

Umsamin norræn lán eru mikilvægur hluti efnahagsáætlunarinnar og verður aðgengi að þeim að vera að fullu tryggt áður en framkvæmdastjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins telur sig geta gengið frá endurskoðun efnahagsáætlunarinnar.

Íslensk stjórnvöld munu áfram fylgja eftir efnahagsáætluninni, í nánu samstarfi við sérfræðinga sjóðsins, sem og öðrum endurreisnarverkefnum af fullum krafti. Gjaldeyrisstaða Seðlabankans er góð og mun töf á lánafyrirgreiðslu ekki hafa þar áhrif," samkvæmt tilkynningu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka