Áætlun um afnám gjaldeyrishafta samþykkt

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt áætlun um afnám gjaldeyrishafta, sem Seðlabankinn samdi í samráði við viðskiptaráðuneytið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þeim verður aflétt í áföngum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Fram kemur að til þess að tryggt sé að jafnvægi efnahagslífsins raskist ekki þegar höftin hverfi verði afnámi þeirra skipt í áfanga og hver þeirra háð því að ákveðnum skilyrðum hafi verið fullnægt. Að uppfylltum skilyrðum verði byrjað á að aflétta takmörkunum á fjármagnshreyfingum sem ekki séu líklegar til að valda óstöðugleika, en öðrum höftum ekki fyrr en þeim áfanga hafi verið lokið með góðum árangri. Miðvikudaginn 5. ágúst mun Seðlabankinn kynna nánar einstaka áfanga áætlunarinnar.

„Í kjölfar falls bankanna var talin hætta á að gengi krónunnar yrði tímabundið fyrir miklum þrýstingi þegar almenn gjaldeyrisviðskipti hæfust á ný. Því var með breytingu á lögum um gjaldeyrismál í lok nóvember og reglum útgefnum af Seðlabanka Íslands lagðar hömlur á gjaldeyrisviðskipti í tengslum við tiltekna flokka fjármagnshreyfinga. Í áætlun stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í nóvember kom fram að eitt brýnasta verkefni Seðlabanka Íslands næstu misserin yrði að tryggja stöðugleika íslensku krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu hennar.

Þótt þau hafi verið nauðsynleg aðgerð til þess að stuðla að stöðugleika krónunnar er ljóst að höft á fjármagnsviðskipti hafa ýmis neikvæð hliðaráhrif. Því hefur frá upphafi verið stefnt að því að afnema þau svo fljótt sem auðið er. Mótun áætlunar um afnám haftanna er því mikilvægur þáttur efnahagsáætlunar er miðar að efnahagsbata. Í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins var einnig kveðið á um slíka áætlun,“ segir í tilkynningunni.

Tekist hefur að skapa traust um efnahagsstefnuna

„Forsenda þess að hægt sé að afnema höftin í áföngum án þess að óstöðugleiki fylgi er að tekist hafi að eyða óvissu og skapa nægilegt traust um efnahagsstefnuna. Mörg mikilvæg skref hafa verið stigin í þá átt að undanförnu, sem ættu að gera mögulegt að taka fyrstu skrefin til afnáms hafta á næstu mánuðum. Með langtímaáætlun í ríkisfjármálum hefur aðhald í fjármálum hins opinbera verið eflt, sem ætti er fram líða stundir að eyða óvissu um sjálfbærni skuldastöðu hins opinbera. Fylgt hefur verið varfærinni peningastefnu og verðbólga hefur hjaðnað nokkuð. Stöðugleikasáttmáli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins liggur fyrir. Mikilvægum áfanga hefur verið náð við að koma á fót sterku fjármálakerfi, sem er vel stjórnað, er undir tilhlýðilegu eftirliti og hefur burði til þess að standast ófyrirsjáanlegar fjármagnshreyfingar þegar gjaldeyrishöftum verður aflétt. Þá eru horfur á að innan fárra mánaða hafi tekist að afla nægs gjaldeyrisforða til þess að mæta tímabundnum óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði, ef til hans kemur. Ekki verður hafist handa við afnám gjaldeyrishafta fyrr en fyrrnefndum forsendum hefur verið fullnægt, en í áætluninni er gert ráð fyrir að það muni takast fyrir 1. nóvember 2009.

Gjaldeyrishöftunum verður sem fyrr segir aflétt í áföngnum. Í upphafi verður höftum af öllu innstreymi erlends gjaldeyris vegna nýrrar fjárfestingar aflétt. Skilyrði þess að heimilt verði að flytja fjármunina aftur úr landi er að hin nýja fjárfesting hafi verið skráð hjá Seðlabanka Íslands. Áætlað er að áhrif þessa fyrsta áfanga á gjaldeyrisforðann verði jákvæð eða lítil. Að uppfylltum skilyrðum og að því gefnu að fyrsti áfanginn hafi tekist eins og vænst er verður hafist handa við hinn síðari hluta áætlunarinnar, sem er afnám hafta á útstreymi gjaldeyris. Þeim áfanga verður skipt í smærri skref, sem verður lýst nánar á kynningarfundi Seðlabankans 5. ágúst nk.,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert