Algjör viðsnúningur varð í rekstri ríkissjóðs árið 2008. Rekstrarreikningur sýnir 216 milljarða tekjuhalla eða 46% af tekjum ársins. Árið 2007 var 89 milljarða afgangur eða um 18% af tekjum ársins. Í árslok 2008 var eigið fé neikvætt um 342 milljarða króna samanborið við jákvætt eigið fé upp á tæpa 10 milljarða í árslok 2007.
Stærstan hluta af þessum viðsnúningi má rekja til greiðsluþrots viðskiptabankanna þriggja í október. Í desember yfirtók ríkissjóður veðlán fjármálafyrirtækja af Seðlabanka Íslands og afskrifaði í kjölfarið umtalsverðan hluta þeirra eða 175 milljarða króna. Þá þurfti ríkissjóður að afskrifa hluta af tryggingabréfum sem útgefin höfðu verið af viðskiptabönkunum þremur og nam sú afskrift 17 milljörðum króna.
Loks hækkuðu lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs töluvert á árinu 2008 sem verður að stórum hluta rakið til áhrifa af falli bankanna á fjárhag lífeyrissjóðanna. Samanlögð gjaldaáhrif af þessum þremur þáttum námu 234 milljörðum króna á árinu 2009. Hrun í afkomu ríkissjóðs milli ára af því tagi sem ofan greinir á sér tæpast hliðstæðu, ritar Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, undir nýútkomna ríkisreikninga fyrir árið 2008.