Það er bagalegt og mikil vonbrigði að endurskoðun hafi ekki verið samþykkt. Verði af endurskoðun síðar í þessum mánuði á það hvorki að raska hagkerfinu né koma því í uppnám. Von er til þess að þetta hafi hvorki áhrif á stýrivexti né lánsfjármat. Þá vonumst til að þetta valdi ekki frekari veikingu krónunnar segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Áætlun um afnám gjaldeyrishafta er að sjálfsögðu tengd því að lánin séu afgreidd.
Nú stendur yfir blaðamannafundur í Stjórnarráðinu í tilefni frestunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á endurskoðun efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar, sem tilkynnt var um í gær.
Jóhanna ítrekaði að AGS hafi sett málið þannig fram að þar sem fjármögnun AGS lánsins með greiðslum frá utanaðkomandi aðilum hafi ekki verið tryggð bíði endurskoðunin.
En komið hefur fram að Norðurlöndin hafi veitt lán með því skilyrði að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar, þar með talið innstæðutryggingar. Fram kom í máli Jóhönnu og Steingríms að vitað væri að þegar lánasamningar Norðurlandanna voru lögð fyrir þingin hafi skilyrði um Icesave samninga verið þar inni.
Það hafi einungis komið fram í gær að það að ekki væri búið að afgreiða Icesave úr þinginu tefði afgreiðslu lánsins frá Norðurlöndunum.
Formleg tilkynning um frestun er ekki enn komin frá AGS en við vitum efni hennar og sendum þetta frá okkur í samráði við þá segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Von sé á henni seinna í dag þar sem AGS muni skýra afstöðu sína. Hvorki Bretar né Hollendingar haif reynst hjálplegir í málinu sem hafi ekki komið á óvart.
Aðspurð segir Jóhanna að fjarmögnun bankanna eigi ekki að vera í uppnámi ef leysist úr þessu í mánuðinum.Jóhanna vildi undirstrika að gjaldeyrisstaðan væri góð.