„Ótrúverðug og villandi“

ÞÖK

Skýrsla ráðgjafarfyrirtækisins Sjónarrandar ehf. um arðsemi orkusölu til stóriðju er ótrúverðug, umfjöllun um efnahagsleg áhrif villandi og útreikningar óvandaðir og rangir í sumum tilvikum.

Þetta segir Ágúst F. Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli, sem kynnt hefur sér innihald skýrslunnar. Hann hefur komið athugasemdum á framfæri við skýrsluhöfunda og þeir nú þegar leiðrétt ákveðna útreikninga. „Alvarlegast er að útreikningar á arðsemi íslenskra orkufyrirtækja eru mjög óvandaðir og leiða til þess að samanburður við erlend orkufyrirtæki er algerlega óraunhæfur,“ segir Ágúst og tekur dæmi um útreikninga Sjónarrandar á ávöxtun eigin fjár árið 2006 hjá Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja.

Bendir Ágúst á að í einni töflu í skýrslunni komi fram að ávöxtun eigin fjár hafi verið neikvæð um 12,4% árið 2006 hjá þessum fyrirtækjum. Það geti ekki staðist þar sem þetta ár hafi samanlagður hagnaður fyrirtækjanna verið yfir 13 milljarðar króna og ávöxtun þeirra á eigin fé um 7,7%. Ágúst segir skýrsluhöfunda hafa viðurkennt að þarna hafi þeir rangt fyrir sér. Við þetta hafi ávöxtun eigin fjár á tímabilinu 1988 til 2006 farið úr 1,4% í 4,4%. Því sé ekki um neina smávillu að ræða og hljóti hún að breyta öllum öðrum útreikningum.

„Þetta er einfaldlega illa gerð skýrsla og ótrúverðug, enda ekki við öðru að búast. Þetta eru menn sem eru búnir að tala í mörg ár gegn fjárfestingum í orkuiðnaði. Hefðu þeir komist að einhverri annarri niðurstöðu, þá væru þeir að viðurkenna að öll þeirra fyrri orð væru röng. Í því ljósi kemur niðurstaða skýrslunnar okkur ekki á óvart,“ segir Ágúst, en ein meginniðurstaða skýrslunnar er að arðsemi af fjármagni bundnu í orkuvinnslu sé ríflega helmingi minni að jafnaði en í annarri atvinnustarfsemi, að stóriðju og fjármálastarfsemi undanskildum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert