Stjórnvöld halda í vonina

„Þetta er væntanlega og vonandi ákveðin töf sem við getum lifað með,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra spurð um frestun á samþykkt efnahagsáætlunar í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS).

„Vonandi verður sem minnst töf á þessu, þannig að óvissan vari ekki lengi. Ef þetta snýst aðeins um fáeinar vikur þá ætti það svo sem ekki að hafa nein teljandi áhrif, svo fremi sem að þá sé ljóst að endurskoðunin geti farið fram án hindrana. Síðast í ágúst eða um mánaðarmótin,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Jóhanna og Steingrímur boðuðu til blaðamannafundar í dag til að ræða frestunina. Þau ítrekuðu að íslensk stjórnvöld hafi uppfyllt öll skilyrði fyrir endurskoðun efnahagsáætlunarinnar.

Þrátt fyrir það hefur framkvæmdastjórn AGS ákveðið að taka ekki fyrir endurskoðun efnahagsáætlunarinnar áður en hún fer í tveggja vikna sumarleyfi 7. ágúst. 

„Þess vegna er það auðvitað mjög bagalegt og okkur mikil vonbrigði að þetta hafi verið niðurstaða sjóðsins,“ segir Jóhanna og bætir við að þetta muni vonandi ekki setja íslenskt efnahagslíf í uppnám. Gjaldeyrisforði landsins sé góður.

„Við vonum það, trúum því og treystum að þetta hafi ekki áhrif á lánsfjármat ríkisins, sem væri afskaplega bagalegt ef það myndi gerast. Eða ef þetta hefði áhrif á stýrivaxtalækkun, en ákvörðun um stýrivexti verður í næsta mánuði,“ segir Jóhanna.

Stjórnvöld vonast til að AGS geti tekið málefni Íslands til endurskoðunar í lok ágúst eða í byrjun september, en þá á að berast annar hluti tveggja milljarða dala láns sjóðsins og fyrsti fjórðungur láns Norðurlandanna, sem alls nemur 2,5 milljörðum dala.

Jóhanna bendir á að AGS hafi staðreynt að fjármögnun efnahagsáætlunarinnar með greiðslum frá utanaðkomandi aðilum, m.a. Norðurlöndunum, hafi ekki verið tryggð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert