Á síðastliðnum tveimur sólarhringum var ný inflúensa A(H1N1) staðfest hjá fimm einstaklingum og heildarfjöldi staðfestra tilfella því samtals 51, enginn er alvarlega veikur, samkvæmt frétt frá sóttvarnalækni.
„Töluvert af fyrirspurnum hefur borist varðandi barnshafandi konur. Barnshafandi konur eru ekki í aukinni hættu á að sýkjast af inflúensunni en svo virðist sem hætta á alvarlegri fylgikvillum sé smávægilega aukin miðað við fólk almennt. Sú hætta er hins vegar ekki það mikil að ástæða sé til sérstakra varúðarráðstafana til að forða þeim frá sýkingu. Sýkist þunguð kona af inflúensu getur verið ástæða til að meðhöndla hana með veirulyfjum að undangengnu mati læknis.
Mesta ferðahelgi ársins gengur nú í garð og mikið er um mannamót. Það er því ástæða til að ítreka að allir sem eru með inflúensulík einkenni (skyndilegur hiti, beinverkir, höfuðverkur, hálssærindi, hósta) eiga að halda sig heima í sjö daga frá upphafi þeirra, fara vel með sig og forðast að smita aðra. Þótt inflúensan sé yfirleitt væg er nauðsynlegt að hafa í huga að fólk með undirliggjandi sjúkdóma getur verið viðkvæmari fyrir henni en þeir sem hraustir eru og fengið alvarleg einkenni,“ segir í tilkynningu sóttvarnalæknis.
Engin alvarleg tilfelli greinst til þessa
Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem hafa smitast af nýju inflúensunni A(H1N1), eða svínainnflúensu, er á suðvesturhorni landsins, að sögn Haraldar Briem sóttvarnalæknis. Dæmi eru m.a. um tilfelli á Egilsstöðum og Snæfellsnesi.
Ekki hafa til þessa greinst nein alvarleg tilfelli af nýju inflúensunni. Haraldur sagði að ef þetta sé eins og árleg inflúensa, að öðru leyti en því að væntanlega muni fleiri smitast, sé óhjákvæmilegt að einhvern tíma komi upp alvarleg tilfelli. Það gæti t.d. átt við um fólk með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma. og til þess gæti komið að fólk yrði lagt á sjúkrahús vegna þess.
Haraldur sagði að tölfræðin sýni að um 1% þeirra sem sýkist geti fengið alvarleg einkenni.
Í sumum löndum, t.d. Noregi, er hætt að taka sýni til greiningar vegna nýju inflúensunnar. Það á ekki við hér, enn sem komið er. „Það gildir enn að við viljum fá sýni frá þeim einstaklingum sem eru með einkenni sjúkdómsins,“ sagði Haraldur.
Hann sagði mjög líklegt að fljótlega eftir verslunarmannahelgina verði tekin ákvörðun um að hætta að taka sýni á suðvesturhorninu þar sem er orðið nokkuð vel staðfest að veikin er að breiðast út.
„Þá myndum við vilja að þeir landshlutar sem ekki eru enn búnir að finna neitt smit haldi áfram að greina,“ sagði Haraldur. „Við þurfum endilega að vita hvort þetta sé búið að ná landsútbreiðslu.“ Hann sagði ljóst að á einhverju tímapunkti yrði hætt að taka sýni úr öllum sem eru með svona einkenni.
Fregnir hafa borist af því að veirulyfið Tamiflu hafi valdið aukaverkunum á borð við ógleði og martraðir hjá meirihluta breskra skólabarna sem fengu lyfið. Haraldur kvaðst ekki hafa séð rætt um þetta á faglegum vefjum, en heyrt af þessu fréttir í fjölmiðlum. Hann kvaðst hafa heyrt af svipaðri umræðu frá Japan fyrir nokkrum árum, en Japanir hafi verið duglegir við að gefa börnum lyfið.
Í Bretlandi getur fólk fengið afgreidd veirulyf í gegnum sérstaka þjónustusíma fyrir inflúensusmitaða, án þess að leita til læknis. Haraldur ekki í áætlunum að bjóða upp á slíka þjónustu hér á landi.
Forgangsröðun verður skilgreind síðar
Nýlega var greint frá áætlun sem Bandaríkjamenn hafa gert um hvaða hópar eigi að njóta forgangs við bólusetningar gegn nýju inflúensunni. Haraldur sagði áætlun Bandaríkjamanna byggjast á hugmyndum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ekki hefur verið ákveðið hér á landi hvernig forgangsröðin við bólusetningu verður.
„Það eru áhættuhópar sem eru í forgangi. Það þarf að skilgreina áhættuhópana vel,“ sagði Haraldur. „Við höfum tíma þangað til bóluefnið kemur til að fá upplýsingar alls staðar að úr heiminum um hvaða fólk er í mestri áhættu.“