Þingfundum hefur verið frestað til 10. ágúst nk, og verða fundir í nefndum í næstu viku. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segist hafa tekið ákvörðun um þetta eftir að hafa haft samráð við þingflokksformenn í gær. Meginástæðan sé sú að Hagfræðistofnun mun ekki skila áliti sínu vegna Icesave-samkomulagsins fyrr en á þriðjudag til fjárlaganefndar.
Hún segir að stefnt sé að því að ljúka sumarþingi um miðjan ágúst.
Það var niðurstaða mín eftir að hafa rætt við þá að fresta þingfundum til 10. ágúst þar sem ekki var ljóst hvenær nefndarálitin fyrir Icesave yrðu tilbúin fyrr en alveg í lok vikunnar. Þá fannst mér eðlilegast að þingfundir hæfust þá strax eftir þá helgi," segir Ásta Ragnheiður.
Með því að gefa nefndum lengri frest til þess að ræða Icesave og vinna sín álit verði væntanlega hægt að hefja umræðu um Icesave á þingfundi strax þann 10. ágúst.