Með breytingum sem lagt er til að verði gerðar á almannatryggingakerfinu myndi draga verulega úr ofgreiðslum til bótaþega Tryggingastofnunar. Breytingarnar miða annars vegar að mikilli og róttækri einföldun á kerfinu og hins vegar að skerðingarfyrirkomulaginu, aðallega með hækkun frítekjumarks. Þetta segir Stefán Ólafsson, prófessor og formaður verkefnahóps félags- og tryggingamálaráðherra, sem hefur unnið að breytingum á almannatryggingakerfinu síðan 2007.
Á þriðjudag kom í ljós að þrír milljarðar króna höfðu verið ofgreiddir til bótaþega og munu fimm þúsund manns þurfa að endurgreiða bætur. Níu þúsund eiga von á endurgreiðslu vegna vangreiddra bóta.
Að sögn Stefáns mun einföldun kerfisins draga úr hættu á röngum greiðslum. Þá vill verkefnisstjórnin sjá frítekjumarkið, sem nú er 8.000 krónur, þrisvar til fjórum sinnum hærra, að það hækki strax í 25-30 þúsund krónur á mánuði.
Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra telur óraunhæft að hægt sé að hækka frítekjumarkið næstu misserin. Verið sé að horfa á enn harðari niðurskurðarkröfur á ríkið á næstu árum.
Árni segir að unnið verði að heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins í samráði við hagsmunaaðila. Því verði þó ekki viðkomið innan 100 daga áætlunar ríkisstjórnarinnar eins og stefnt hafi verið að.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.