Blíða í Eyjum

Prúðbúnir Vestmannaeyingar á leið í Herjólfsdal.
Prúðbúnir Vestmannaeyingar á leið í Herjólfsdal. mbl.is/Sigurgeir

„Það eru nú flestir sofandi en það vinna nú um 70 manns við að þrífa dalinn svo hann ætti að verða tilbúinn þegar fólk vaknar,“ segir Páll Scheving úr þjóðhátíðarnefnd Eyjamanna. Von er á allt að 2.000 manns í viðbót við þá sem komu á þjóðhátíðina í gær og eru allar leiðir notaðar til að komast til Eyja.

Þyrlur, flugvélar og skip verða á stöðugum ferðum á milli Eyja og lands í dag til að anna eftirspurninni en að mati mótshaldara verður hátíðin í ár sú stærsta sem haldin hefur verið í eyjunni. Óvenju mikið hefur verið um einkaflug til Eyja enda uppselt í aðrar samgöngur. Búist er við að um tíu þúsund manns verði í brekkunni á sunnudagskvöld, þegar hámarki hátíðarinnar er náð.

„Miðað við þann fjölda sem hér er erum við ánægð með umgengnina. Fólk er í hátíðarskapi enda leikur veðrið við okkur og spáin er góð,“ segir Páll.  Öflug barnadagskrá hefst í dag klukkan 15 en annars ber hæst tónleika með Sálinni í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert