Mikil ölvun var á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í nótt að sögn lögreglu. Gestir munu almennt hafa hegðað sér vel, einn maður reyndist þó nokkuð brotinn í andliti auk þess sem kona á tvítugsaldri kærði nauðgun. Hvort tveggja er til rannsóknar hjá lögreglunni. Níu fíkniefnamál hafa komið upp síðan í gær.
Konan kærði nauðgunina til lögreglunnar í nótt en gerandi hefur ekki fundist þrátt fyrir greinargóða lýsingu. Konan var flutt á neyðarmóttöku vegna kynferðisafbrota á sjúkrahúsi Vestmannaeyja.
Þjóðhátíðin í ár verður stærsta þjóðhátíð sem haldin hefur verið í eyjunni að mati mótshaldara, sem búast við að um tíu þúsund manns verði í brekkunni á sunnudagskvöld, þegar hámarki hátíðarinnar er náð. Eindæma blíða er í Eyjum og er henni spáð alla helgina.
Óvenjumikið er um hvítu hústjöldin í ár og eru þau yfir 350 sem bendi til þess að æ fleira af fullorðna fólkinu mæti í dalinn. Stærsti hluti gesta sé þó ungt fólk sem komið er til þess að gera sér glaðan dag. Aðstandendur segja alla viðstadda í hátíðarskapi og allt gangi samkvæmt óskum