„Menn hljóta að reisa einhverjar skorður við bankaleynd í ljós þess að þessir bankar hrundu,“ segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands . Henni þykir óeðlilegt af Kaupþingi að fara fram á lögbann í ljósi efnahagshrunsins og viðskiptahátta gömlu bankanna.
„Það er vissulega verið að binda hendur fjölmiðla og mér finnst það mjög einkennilegt í ljósi þeirra atburða sem hafa orðið í íslensku samfélagi. Þetta hlýtur að þurfa skoðast í ljósi þess að þessir bankar settu landið á vonar völ, ef svo má segja,“ segir Þóra Kristín.
Hún segir að lögbannið komi ekki óvart í ljósi þess hve víðtæk bankaleynd er. Aftur á móti eigi almenningur kröfu á að vita hvernig var að málum staðið „þó það kunni að henta einhverjum betur að hann þegi bara og borgi brúsann.“ Þóra Kristín segir að íslenska þjóðin verði aldrei sátt við þetta lögbann.
Segir hún lögbannið grafa undan trausti fólks á endurreisn Íslands, með því sé bankaleynd tekin fram yfir almannahagsmuni.
Hjá Kaupþingi vildi enginn tjá sig um málið, hvorki lögbannið né tilmæli bankans um að aðrir fjölmiðlar en RÚV hættu fréttaflutningi tengdum lánafyrirgreiðslum Kaupþings til fyrirtækja eigendahóps bankans.