„Þetta er mál þar sem mér sýnist almannahagsmunir hljóti að vega þyngra en bankaleynd,“ segir Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, um lögbann á umfjöllun Ríkisútvarpsins um umfangsmiklar lánafyrirgreiðslur Kaupþings til fyrirtækja eigendahóps bankans.
„Ég tel það að sjálfsögðu eðlilegt að fjölmiðlar fjalli um þessi mál,“ segir Katrín og telur þau varða alla þjóðina. Hún kveðst þó ekki þekkja lagalegar forsendur málsins til fulls. Katrín telur að umfjöllun um málið væri til þess fallin að auka gagnsæi í efnahagsmálum.