Loftrýmisgæsla NATÓ að hefjast

Flutningavél bandríska hersins á Akureyrarflugvelli nú síðdegis
Flutningavél bandríska hersins á Akureyrarflugvelli nú síðdegis mbl.is/Þorgeir Baldursson

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hefst á ný fimmtudaginn 6. ágúst. Bandaríski flugherinn annast verkefnið að þessu sinni í boði íslenskra stjórnvalda en í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland.

Alls munu um 140 liðsmenn bandaríska flughersins taka þátt í verkefninu, sem verður nokkru umfangsmeira en verkefni Norðmanna og Dana hér á landi fyrr á árinu. Bandaríkjamenn koma til landsins með fjórar F-15 orrustuþotur, auk eldsneytisflugvélar og munu halda uppi loftrýmisgæslu í þrjár vikur.

Loftrýmisgæslan byggist m.a. á því að nýta upplýsingar frá ratsjárstöðvum íslenska loftvarnarkerfisins. Það er jafnframt hluti af samhæfðu loftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins.

Næstu daga og fram í næstu viku stendur undirbúningur verkefnisins yfir hér á landi. Vegna þess má búast við nokkurri umferð flutningaflugvéla Bandaríkjahers um Keflavíkurflugvöll og Akureyrarflugvöll næstu daga.

Varnarmálastofnun Íslands annast undirbúning og fer með umsýslu vegna loftrýmisgæsluverkefnisins. Bandaríkjamenn bera kostnað af loftrýmisgæslunni að öðru leyti en því að Íslendingar greiða svonefndan gistiríkistuðning, sem felst einkum í greiðslu kostnaðar við mat og gistingu mannaflans meðan á verkefninu stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert