Lögbanni mögulega hnekkt fyrir dómstólum miðað við fordæmi

Sigurður Líndal
Sigurður Líndal Ómar Óskarsson

Sigurður Líndal, lagaprófessor, telur að miðað við dómaframkvæmd í málum þar sem vegist hafa á tjáningarfrelsi og réttur almennings til upplýsinga annars vegar og friðhelgi einkalífs (sem bankaleynd felur í sér meðal annars) sé ekki ólíklegt að lögbannsúrskurði sýslumannsins í Reykjavík á umfjöllun Ríkisútvarpsins um umfangsmiklar lánafyrirgreiðslur Kaupþings til fyrirtækja eigendahóps bankans verði hnekkt fyrir dómi.

Sigurður vill þó ekki slá neinu föstu og kallar álit sitt almennar hugleiðingar um málið frekar en heilsteypta lagalega niðurstöðu.

Hann segir að í málinu vegist á fyrrnefnd sjónarmið en almannahagsmunir sem fylgja því að upplýsingarnar sem um ræðir líti dagsins ljós leggist á sveif með sjónarmiðum um tjáningarfrelsi og rétti almennings til upplýsinga. Málið sé sérstakt að því leyti að um sé að ræða geysilegar fjárhæðir og ráðstafanir sem íslenskur almenningur þurfi að einhverju leyti að bera skellinn af. Vegi þessi sjónarmið um almannahagsmuni því þungt.

„Þegar um svona hrikalegar fjárhæðir er að ræða, sem má segja að snerti þjóðfélagið þá séu það kannski ríkari hagsmunir [en viðskiptahagsmunir bankanna],“ segir Sigurður og telur að fái þessi sjónarmið hljómgrunn fyrir dómstólum geti það orðið til þess að lögbannið verði fellt úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka