Neysluvenjur landans hafa breyst mikið að undanförnu í kjölfar hærra verðs á innfluttum matvælum. „Við sjáum mikla sveiflu í allri neyslu. Fólk er greinilega að spara við sig og velur ódýrari vörur en áður,“ segir Marteinn Magnússon, markaðsstjóri hjá Eggerti Kristjánssyni hf.
Síðasta eina og hálfa árið hefur gengi íslensku krónunnar gagnvart evru, Bandaríkjadal og dönsku krónunni lækkað um nærri 100%. Verðhækkanir á matvælum eru á því róli enda þótt heildsalar reyni nú sem aldrei fyrr að vera „nettari í álagningu“ eins og Marteinn kemst að orði.
Hann segist merkja stóraukna sölu á til dæmis hrísgrjónum, pasta, hveitivörum og slíku. Á hinn bóginn spari fólk við sig ýmsan lúxus, til að mynda matvæli úr lífrænt ræktuðum efnum. Þá seljist frosið grænmeti mjög vel í dag, en á móti megi ætla að sala á fersku grænmeti sé minni.
„Verðlagning hefur jafnan sálfræðileg þolmörk. Fólk er kannski tilbúið að borga 400 kr. fyrir kexpakkann en þegar hann er kostar orðið 800 kr. hættir varan að seljast. Því verða verslunarmenn að gæta hófs í verðlagningu.“