Fjársvikararnir fjórir, sem nú sitja í varðhaldi fyrir að hafa svikið út tugmilljónir króna með stórfelldu skjalafalsi, gátu fengið 20 milljónir frá Íbúðalánasjóði tiltölulega áreynslulaust.
Þeir gáfu einfaldlega upp kennitölu og persónupplýsingar konu nokkurrar og óskuðu rafrænt eftir greiðslumati. Þegar það fékkst óskuðu þeir rafrænt eftir hámarksláni frá sjóðnum, 20 milljónum króna, til þess að kaupa íbúð af einkahlutafélagi sem þeir höfðu þá tekið yfir með fölsuðum tilkynningum til hlutafélagaskrár. Lánið fékkst og þeir fölsuðu undirskrift konunnar á skuldabréf og sendu Íbúðalánasjóði. Í kjölfarið voru 20 milljónir færðar á reikning seljanda – hlutafélagsins. Þá fölsuðu þeir umboð, fóru í bankann og leystu þýfið út.
Að sögn talsmanna Íbúðalánasjóðs býr sjóðurinn ekki yfir rithandarsýnum og getur því ekki borið saman undirskriftir sem berast á skuldabréfum. Með nægilega einbeittum brotavilja ætti því að vera leikur einn að svíkja fé út úr sjóðnum eins og fjórmenningarnir sönnuðu með brotum sínum.
Gunnhildur Gunnarsdóttir, sviðstjóri á lögfræðisviði sjóðsins, staðfestir að verkferlarnir séu nú í endurskoðun í kjölfar svikanna. Umboðið sem fjórmenningarnir fölsuðu og fóru þá með í bankann vakti einnig spurningar enda var það ákaflega „subbulegt“ og útkrotað og gaf til kynna að sumir sem þar voru nefndir þekktu ekki eigin kennitölur með vissu og þyrftu nokkrar tilraunir til að rita þær réttar á pappírinn. Það stóðst hins vegar öll formskilyrði og því voru ekki gerðar athugasemdir.
Samkvæmt upplýsingum frá bönkunum er kennitölum allra sem koma fram á umboði flett upp í viðskiptamannakerfi bankans og athugað hvort þær passi ekki. Þá segir jafnframt einnig að undirskriftir allra séu bornar saman við undirskriftir í viðskiptamannakerfi. Bankar hafa hins vegar, ekki frekar en hlutafélagaskrá eða Íbúðalánasjóður, rithandarsérfræðinga á launaskrá sinni. Því þarf í raun að vísa máli til lögreglu telji starfsmenn að um svik sé að ræða.
Bankinn sem fjórmenningarnir fóru með sitt hroðvirknislega umboð til var Íslandsbanki. Þar er nú verið endurskoða allt verkferlið varðandi umboð enda þykir málið allt hið óheppilegasta. Brýnt hefur verið fyrir starfsmönnum þar að hafa vökult auga með umboðum og láta strax vita ef eitthvað grunsamlegt kemur upp.