Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallð út seint í gærkvöldi vegna elds, sem logaði í ruslagámi við Brúarland í Mosfellsbæ. Vel gekk að slökkva eldinn en tré, sem voru við gáminn, sviðnuðu.
Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu var mikið af timbri í gámnum og því logaði glatt í honum. Ljóst þykir að kveikt hafi verið í timbrinu.
Slökkviliðið var einnig kallað út í nótt í hús í miðborg Reykjavíkur þar sem straumrofi í þvottavél brann yfir. Litlar skemmdir urðu þar. Þá var talsvert mikið að gera í sjúkraflutningum í nótt.