Tilkynnt var um fjögur innbrot á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Þar að auki var nóttin afar annasöm hjá lögreglu. Um sjötíu bókanir eru skráðar sem telst töluvert þegar ekki er um mikið að vera í borginni. Kvartanir vegna hávaða í heimahúsum voru áberandi margar. Einn ökumaður var stöðvaður drukkinn undir stýri.
Einna alvarlegasta innbrotið var í Keilufelli í Breiðholti. Þar vaknaði heimilisfólk við þrusk en þegar það kom fram var búið að róta í öllum þeirra eigum. Ekki liggur fyrir heildarlisti yfir stolna muni en meðal annars voru teknir bíllyklar að tveimur bílum, og bílarnir sjálfir. Lögregla er búin að finna báða bílanna og ökumann annars þeirra. Hann er bíður yfirheyrslu í fangaklefa.
Þá var brotist inn í kjallara við Laugaveg og annan við Efstasund. Í öðru innbrotinu var stolið áfengi, myndavél, DVD-myndir og dúnúlpu.
Jafnframt var farið inn í raðhús við Birkigrund. Húsráðendur komu heim á þriðja tímanum í nótt og var aðkoman ljót. Meðal annars var tekin fartölva.
Ekki hefur verið tilkynnt um mörg innbrot þessa helgi en ljóst að þeim fjölgar - líklega verulega - þegar líður á daginn og ferðalangar koma til síns heima. Lögregla reiknaði allt eins með holskeflu tilkynninga.