Íslendingadagurinn var haldinn hátíðlegur í 120. skipti í Gimli í Kanada á laugardag. Rigning, kuldi og vindur settu mark sitt á hátíðarhöldin sem voru fyrir vikið óvenju íslensk þetta árið. Veðrið hafði þó ekki meiri áhrif en svo að heimamenn í Gimli og gestir skemmtu sér hið besta. Hátíðarhöldin héldu áfram í gær og lýkur þeim í dag.
"Mín kenning er sú að Þór [þrumuguðinn] sé að leika sér að okkur," sagði Rob Rousseau, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, í samtali við dagblaðið Winnipeg Free Press. Hann bætti því hins vegar við að skipuleggjendur væru undir allt búnir, enda veður verið misjafnt á 120 árum hátíðarinnar.
Dagskráin í ár var örlítið breytt frá því í fyrra en hætt var við alla dagskrárliði þar sem áfengi kom við sögu. Það var ákveðið vegna þess að 29 ára karlmaður var barinn til dauða á hátíðinni fyrir ári.