Vopnað rán var framið í 11-11 í Skipholti á ellefta tímanum í dag. Tveir menn réðust inn í verslunina og ógnuðu starfsfólki með tveimur stórum hnífum. Þeir komust undan með verðmæti en ekki er vitað hversu mikil. Lögregla rannsakar málið.
Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra komust mennirnir undan á fólksbifreið. Fátt annað er vitað um málið, annað en að enginn slasaðist. Farið verður yfir upptökur úr öryggismyndavélum og reynt að hafa uppi á mönnunum. Þeir eru taldir vera á þrítugsaldri.
Starfsfólki verslunarinnar var að vonum brugðið eftir ránið. Ekki liggur fyrir hvort það þurfi áfallahjálp.