Að andæfa lyginni

Karl Wernersson.
Karl Wernersson.

Hingað til hef­ur það verið stefna stjórn­enda og eig­enda Milest­one að taka ekki nema að tak­mörkuðu leyti þátt í fjöl­miðlaum­fjöll­un um fé­lagið, skrif­ar Karl Werners­son í aðsendri grein í Morg­un­blaðinu í dag.

„Allt frá stofn­un Milest­one hef ég sem stjórn­ar­formaður reynt að halda mig að mestu frá al­mennri umræðu. Milest­one hef­ur ætíð verið að fullu í eigu fjöl­skyldu minn­ar og eng­ir aðrir hlut­haf­ar hafa komið að eign­ar­haldi á fyr­ir­tæk­inu, hvorki al­menn­ing­ur, líf­eyr­is­sjóðir né aðrir fjár­fest­ar. Fé­lagið hef­ur aldrei verið skráð á markað. Milest­one er fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki.

Eng­inn er haf­inn yfir gagn­rýni

Það stend­ur skrifað að það þurfi kraft til að andæfa lyg­inni. Ég játa það fús­lega að und­an­farn­ir mánuðir hafa verið mér og mörg­um öðrum starfs­mönn­um Milest­one og dótt­ur­fé­laga gríðarlega erfiðir. Hingað til hef ég sætt mig við fleip­ur fjöl­miðla um Milest­one, Sjóvá og mig per­sónu­lega. Ég er ekki haf­inn yfir gagn­rýni. Starf­semi Milest­one er ekki haf­in yfir gagn­rýni. Að sama skapi eru fjöl­miðlar ekki hafn­ir yfir gagn­rýni en þeir verða að gæta orða sinna í op­in­berri umræðu.

Ósvífn­ar lyg­ar og upp­spuni frá rót­um

Staðreynd máls­ins er þessi: Ég á ekki banka­reikn­ing hjá Straumi, ég á ekki og hef aldrei átt inn­stæður í Straumi, ég flutti enga fjár­muni frá Íslandi í aðdrag­anda eða kjöl­far banka­hruns­ins. Milest­one átti eng­ar inn­stæður hjá Straumi og Milest­one stóð ekki í fjár­magns­flutn­ing­um frá Íslandi í aðdrag­anda eða kjöl­far banka­hruns­ins. Hvað stend­ur eft­ir af frétt­inni? Ná­kvæm­lega ekk­ert! Hún er upp­spuni og lygi frá rót­um. Skipt­ir þetta ekki máli? Er allt leyfi­legt í ís­lenskri fjöl­miðlun? Svona ósvífn­ar lyg­ar og upp­spuna get­ur eng­inn maður látið yfir sig ganga.

Tvö pró­sent arðgreiðslur til eig­enda

Það ligg­ur fyr­ir að heild­ar­hagnaður Sjóvár árin 2004-2007 nam ríf­lega 23,5 millj­örðum króna og hlut­ur Milest­one af arðgreiðslum fyr­ir árin nam 17,3 millj­örðum króna. Einnig er mik­il­vægt að árétta að fjár­hags­leg­ur styrk­ur Milest­one-sam­stæðunn­ar var met­inn af viðkom­andi eft­ir­litsaðilum og þannig er reg­in­mun­ur á arðgreiðslu til móður­fé­lags inn­an sam­stæðu og hins veg­ar arðgreiðslum í vasa eig­enda móður­fé­lags­ins. Í þessu sam­hengi er rétt að skoða af­komu og arðgreiðslur frá Milest­one til eig­enda.

Heild­ar­hagnaður Milest­one frá ár­inu 2004 til 2007 nam 58,5 millj­örðum króna og heild­ar­arðgreiðslur til eig­enda Milest­one á þessu tíma­bili námu sam­tals 1,1 millj­arði króna. Arðgreiðslur til eig­enda Milest­one námu því sam­tals 2% af upp­söfnuðum hagnaði ár­anna sem verða að telj­ast mjög hóf­leg­ar arðgreiðslur. Til sam­an­b­urðar má nefna að vext­ir af inn­stæðum í banka námu á tíma­bil­inu 10-15% á ári. All­ar full­yrðing­ar um að eig­end­ur Milest­one hafi tæmt fé­lög­in eru því al­ger­lega raka­laus þvætt­ing­ur.

Nauðasamn­ing­ur og rann­sókn sér­staks sak­sókn­ara

Al­var­leg­ar ásak­an­ir hafa komið fram í fjöl­miðlum um mál­efni Sjóvár og Milest­one í kjöl­far hús­leit­ar sér­staks sak­sókn­ara hinn 7. júlí sl. Stjórn­end­ur Milest­one sýna full­an sam­starfs­vilja og hafa beitt sér fyr­ir auk­inni upp­lýs­inga­gjöf til að varpa ljósi á þau mál sem sak­sókn­ari er að kanna. Ég ber fullt traust til þess að niðurstaða rann­sókn­ar­inn­ar verði fag­leg og byggð á staðreynd­um.

Sér­stak­ur sak­sókn­ari hef­ur af­rit af öll­um tölvu­gögn­um Milest­one og dótt­ur­fé­laga, öll­um bók­halds­gögn­um og hann fékk af­hent öll þau gögn sem hann bað um í hús­leit­um á heim­ili mínu, heim­il­um stjórn­enda Milest­one og á starfs­stöðvum fé­lag­anna. Ekk­ert var skilið und­an. Eng­um gögn­um hef­ur verið eytt. Allt er uppi á borðum. Ég hef ekk­ert að fela.

Menn spyrji sjálfa sig gagn­rýnna spurn­inga

And­rúms­loftið í sam­fé­lag­inu er lævi blandið en á ein­hverj­um tíma­punkti verða menn að bera hönd fyr­ir höfuð sér. Að sama skapi veit ég að þorri manna tek­ur rök­um og legg­ur sjálf­stætt mat á staðreynd­ir mála. Ég geri hins veg­ar fast­lega ráð fyr­ir því að viðbrögð fjöl­miðla við þess­ari grein verði blend­in. Ein­hverj­ir munu tala um að ég svíf­ist einskis. Aðrir munu segja að ég kunni ekki að skamm­ast mín. Hvernig dirf­ist hann? munu ein­hverj­ir segja.

Það hlýt­ur hins veg­ar að vera sann­gjörn beiðni að fjöl­miðlar skáldi ekki upp frétt­ir í þeim til­gangi að af­vega­leiða umræðuna. Orð eru dýr og það er eng­um til hróss að vega að nafn­greind­um mönn­um á for­send­um sem ekki stand­ast skoðun. Það er grunnkrafa að fjöl­miðar geti fært sönn­ur á full­yrðing­ar sín­ar en hlaupi ekki útund­an sér í hömlu­laus­um upp­hróp­un­um sem eiga sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um. Menn verða að hafa vaðið fyr­ir neðan sig. Þannig tryggj­um við að hinir öm­ur­legu at­b­urðir hausts­ins muni aldrei end­ur­taka sig.

Karl Werners­son er stjórn­ar­formaður Milest­one og fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður Sjóvár.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert