Hingað til hefur það verið stefna stjórnenda og eigenda Milestone að taka ekki nema að takmörkuðu leyti þátt í fjölmiðlaumfjöllun um félagið, skrifar Karl Wernersson í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
„Allt frá stofnun Milestone hef ég sem stjórnarformaður reynt að halda mig að mestu frá almennri umræðu. Milestone hefur ætíð verið að fullu í eigu fjölskyldu minnar og engir aðrir hluthafar hafa komið að eignarhaldi á fyrirtækinu, hvorki almenningur, lífeyrissjóðir né aðrir fjárfestar. Félagið hefur aldrei verið skráð á markað. Milestone er fjölskyldufyrirtæki.
Það stendur skrifað að það þurfi kraft til að andæfa lyginni. Ég játa það fúslega að undanfarnir mánuðir hafa verið mér og mörgum öðrum starfsmönnum Milestone og dótturfélaga gríðarlega erfiðir. Hingað til hef ég sætt mig við fleipur fjölmiðla um Milestone, Sjóvá og mig persónulega. Ég er ekki hafinn yfir gagnrýni. Starfsemi Milestone er ekki hafin yfir gagnrýni. Að sama skapi eru fjölmiðlar ekki hafnir yfir gagnrýni en þeir verða að gæta orða sinna í opinberri umræðu.
Staðreynd málsins er þessi: Ég á ekki bankareikning hjá Straumi, ég á ekki og hef aldrei átt innstæður í Straumi, ég flutti enga fjármuni frá Íslandi í aðdraganda eða kjölfar bankahrunsins. Milestone átti engar innstæður hjá Straumi og Milestone stóð ekki í fjármagnsflutningum frá Íslandi í aðdraganda eða kjölfar bankahrunsins. Hvað stendur eftir af fréttinni? Nákvæmlega ekkert! Hún er uppspuni og lygi frá rótum. Skiptir þetta ekki máli? Er allt leyfilegt í íslenskri fjölmiðlun? Svona ósvífnar lygar og uppspuna getur enginn maður látið yfir sig ganga.
Það liggur fyrir að heildarhagnaður Sjóvár árin 2004-2007 nam ríflega 23,5 milljörðum króna og hlutur Milestone af arðgreiðslum fyrir árin nam 17,3 milljörðum króna. Einnig er mikilvægt að árétta að fjárhagslegur styrkur Milestone-samstæðunnar var metinn af viðkomandi eftirlitsaðilum og þannig er reginmunur á arðgreiðslu til móðurfélags innan samstæðu og hins vegar arðgreiðslum í vasa eigenda móðurfélagsins. Í þessu samhengi er rétt að skoða afkomu og arðgreiðslur frá Milestone til eigenda.
Heildarhagnaður Milestone frá árinu 2004 til 2007 nam 58,5 milljörðum króna og heildararðgreiðslur til eigenda Milestone á þessu tímabili námu samtals 1,1 milljarði króna. Arðgreiðslur til eigenda Milestone námu því samtals 2% af uppsöfnuðum hagnaði áranna sem verða að teljast mjög hóflegar arðgreiðslur. Til samanburðar má nefna að vextir af innstæðum í banka námu á tímabilinu 10-15% á ári. Allar fullyrðingar um að eigendur Milestone hafi tæmt félögin eru því algerlega rakalaus þvættingur.
Alvarlegar ásakanir hafa komið fram í fjölmiðlum um málefni Sjóvár og Milestone í kjölfar húsleitar sérstaks saksóknara hinn 7. júlí sl. Stjórnendur Milestone sýna fullan samstarfsvilja og hafa beitt sér fyrir aukinni upplýsingagjöf til að varpa ljósi á þau mál sem saksóknari er að kanna. Ég ber fullt traust til þess að niðurstaða rannsóknarinnar verði fagleg og byggð á staðreyndum.
Sérstakur saksóknari hefur afrit af öllum tölvugögnum Milestone og dótturfélaga, öllum bókhaldsgögnum og hann fékk afhent öll þau gögn sem hann bað um í húsleitum á heimili mínu, heimilum stjórnenda Milestone og á starfsstöðvum félaganna. Ekkert var skilið undan. Engum gögnum hefur verið eytt. Allt er uppi á borðum. Ég hef ekkert að fela.
Andrúmsloftið í samfélaginu er lævi blandið en á einhverjum tímapunkti verða menn að bera hönd fyrir höfuð sér. Að sama skapi veit ég að þorri manna tekur rökum og leggur sjálfstætt mat á staðreyndir mála. Ég geri hins vegar fastlega ráð fyrir því að viðbrögð fjölmiðla við þessari grein verði blendin. Einhverjir munu tala um að ég svífist einskis. Aðrir munu segja að ég kunni ekki að skammast mín. Hvernig dirfist hann? munu einhverjir segja.
Það hlýtur hins vegar að vera sanngjörn beiðni að fjölmiðlar skáldi ekki upp fréttir í þeim tilgangi að afvegaleiða umræðuna. Orð eru dýr og það er engum til hróss að vega að nafngreindum mönnum á forsendum sem ekki standast skoðun. Það er grunnkrafa að fjölmiðar geti fært sönnur á fullyrðingar sínar en hlaupi ekki útundan sér í hömlulausum upphrópunum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Menn verða að hafa vaðið fyrir neðan sig. Þannig tryggjum við að hinir ömurlegu atburðir haustsins muni aldrei endurtaka sig.
Karl Wernersson er stjórnarformaður Milestone og fyrrverandi stjórnarformaður Sjóvár.