Bóluefni fyrir 380 milljónir

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra.
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra kynnti ríkisstjórn í morgun aðgerðir gegn H1N1 inflúensunni og stöðu mála. Jafnframt var kynnt að ákveðið hefði verið að kaupa 300 þúsund skammta af bóluefni gegn inflúensunni.

„Það er greinilegt að faraldurinn er að breiðast út en við störfum samkvæmt áætlun sem sóttvarnalæknir lagði upp með í vor. Við ákváðum í vor að kaupa til landsins á bilinu 150.000 til 300.000 skammta af bóluefni en nú liggur fyrir að gripið verður til ítrustu ráðstafana með kaupum á 300.000 skömmtum,“ segir Ögmundur Jónasson.

Ekki liggur fyrir hvenær bóluefnið kemur til landsins eða hvenær byrjað verður að bólusetja.

300.000 skammtar duga til að bólusetja hálfa þjóðina en bólusetja þarf hvern einstakling tvisvar sinnum.

Kostnaður íslenska ríkisins vegna kaupa á bóluefni gegn H1N1 inflúensunni er rúmar 380 milljónir króna. Hver skammtur kostar 7 evrur og heildarkostnaðurinn því 2,1 milljón evra.

„Þetta er fljótt að telja en það er full ástæða til að grípa til ítrustu varúðarráðstafana,“ segir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert