Stjórnvöld hafa afráðið að birta öll þau gögn sem lögð verða fyrir Alþingi vegna frumvarps fjármálaráðherra um ábyrgð ríkissjóðs á lánum Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta vegna greiðslna til eigenda reikninga á Icesave-netreikningum Landsbanka Íslands.
Á síðunni island.is eru birtir lánasamningar Íslands og Hollands annarsvegar og Íslands og Bretlands hinsvegar, bæði á íslensku og ensku, öll þau skjöl sem lögð er fyrir Alþingi og opinberuð verða, en 23 skjöl verða aðgengileg þingmönnum en ekki öðrum.
Þá er á vef fjárlaganefndar Alþingis að finna tugi skjala sem tengjast umfjöllun um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninga við Breta og Hollendinga. Gögnin á vef fjárlaganefndar hafa verið aðgengileg frá því nefndin hóf umfjöllun um málið í júlí. Alla jafna eru gögn ekki birt á vef fjárlaganefndar fyrr en nefndin hefur lokið umfjöllun um viðkomandi mál. Sú ákvörðun var hins vegar tekin að opna jafnóðum fyrir aðgengi að Icesave-gögnum sem ekki ríkir trúnaður um.
Gögn tengd Icesave á vef fjárlaganefndar