Icesave-reiknir á Mbl.is

Nú er hægt að skoða lyktir Icesave-málsins samkvæmt mismunandi forsendum á vef mbl. Icesave-reikninum er ætlað að varpa ljósi á skuldbindingar íslenska ríkisins vegna samningsins.

Á vef mbl.is má nú nálgast svokallaðan Icesave-reikni sem gerir fólki kleift að skoða lyktir Icesave-málsins samkvæmt fyrirliggjandi samningi eða öðrum forsendum sem hægt er að setja inn í reikninn. Er reikninum ætlað að varpa ljósi á þær skuldbindingar sem íslenska ríkið tekst á hendur með samningunum.

Í reikninum má sjá með skýrum hætti hvaða áhrif breyttar forsendur hafa á niðurstöðu málsins og lokauppgjör þess. Forsendur málsins eru sundurliðaðar í reikninum og ætti það að auðvelda öllum að átta sig á samningnum, sem hefur gjarnan verið sagður illskiljanlegur venjulegu fólki. Öllum liðum fylgja skýringar sem hjálpa lesendum að átta sig á málinu. Þá eru tenglar í tengdar fréttir, greinar og fréttaskýringar við hvern lið sem varpa frekari ljósi á þau atriði sem til skoðunar eru.

Ekkert, 357,1 eða 943,6 milljarðar króna?
Bæði eru fastar og breytilegar forsendur í reikninum. Þær föstu eru lán frá Bretum og Hollendingum en hinar breytilegu eru meðal annars lánavextir, mat á eignum Landsbankans, forgangur krafna og gengi gjaldmiðla. Því eru engin takmörk sett hvernig breyta má sumum forsendum og eru möguleikar niðurstöður því óendanlega margar. Séu bestu mögulegu stöðluðu forsendur sem boðið er upp á í reikninum valdar nemur skuldbinding Íslands 0 krónum. Á hinn bóginn verður hún 943,6 milljarðar króna séu þær verstu valdar. Þetta eru öfgadæmi og hvorugt þeirra er raunhæft en séu grunnforsendur reiknisins lagðar til grundvallar nemur skuldbinding íslenska ríkisins vegna Icesave 357,1 milljarði.

Er það fyrirtækið Datamarket sem hannaði reikninn. skulias@mbl.is

Icesave-reiknirinn á Mbl.is

Meira í Morgunblaðinu á miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka