Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gat um helgina ekki sinnt eftirlitsstarfi í íbúðahverfum borgarinnar í þeim mæli sem að var stefnt. Hent hefur í háönn sumarleyfa undanfarið að aðeins þrettán lögreglumenn séu á almennri vakt og af því leiðir að eftirlitsstarf er takmarkað. „Lögregluliðið er vegna sparnaðar fámennara en það var til dæmis um þetta leyti í fyrra,“ segir Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn.
Alls bárust lögreglu 34 tilkynningar um þjófnaði og innbrot á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Brotist var inn í íbúðarhúsnæði, fyrirtæki og sumarhús.
Í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi bjóst varðstjóri við að tilkynningunum fjölgaði þegar fólk kæmi til síns heima eftir útilegur helgarinnar eða til vinnu í dag. „Þessi mikli fjöldi innbrota núna er mun meiri en t.d. um verslunarmannahelgina í fyrra. Svona hefur þróunin verið,“ sagði Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn.