„Þetta er toppur sem við höfum ekki séð lengi,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, spurður út í innbrotafaraldur á höfuðborgarsvæðinu um verslunarmannahelgina.
„Það er búið að tilkynna til okkar 40 innbrot það sem af er, sem áttu sér stað yfir helgina. Sem er nokkuð umfram það sem við vorum að gera okkur vonir um,“ segir Kristján.
Brotist hefur verið inn í bíla, fyrirtæki og eitthvað hefur verið um innbrot í heimahús. Aðspurður segir Kristján ekki eiga von á því að tilkynningum eigi eftir að fjölga mikið. Þá segir hann að það hafi gengið þokkalega að upplýsa málin. Í mörgum tilvikum er um svokallaða góðkunningja lögreglunnar að ræða.
Þá var framið rán í verslun 11-11 í Skipholti í gær og hafa tveir verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins.
Innbrotahrinan hófst síðasta sumar
Kristján segist ekki hafa skýringu á reiðum höndum hvers vegna svo mörg innbrot hafi átt sér stað um helgina. Hann bendir hins vegar að að „frá því í júlí í fyrra þá kom hrina innbrota sem síðan hefur verið nokkuð viðvarandi eftir það. Það er eitthvað sem við erum að glíma við að ná niður aftur,“ segir Kristján.
„Þetta kemur alltaf í hrinum. Þessi hefur verið nokkuð löng. Þannig að þetta er eiginlega það sem er stóra málið hjá okkur núna, að ná þessu niður með einhverjum ráðum.“
Aðspurður hvetur Kristján fólk til að láta lögregluna vita verði það t.a.m. vart við grunsamlegar mannaferðir í hverfum. Allar slíkar ábendingar séu vel þegnar og í raun mættu þær vera fleiri.
Kristján segir að almennt litið hafi verslunarmannahelgin gengið prýðilega á höfuðborgarsvæðinu. Umferðin hafi gengið vel og verið slysalaus að mestu. Mikið og gott eftirlit hafi verið við Suðurlands- og Vesturlandsveg. Álagið hefur hins vegar verið töluvert, og skýrist það að verulegu leiti af fámennara lögregluliði.