Mesta hættan fólksflótti

„Mesta hættan liggur í því ef efnahagshremmingar þær sem við glímum nú við verða til þess að fólk flytji úr landi í stórum stíl. Slíkt myndi minnka framleiðslu í framtíðinni og þyngja skuldabyrðina enn frekar,“ segir m.a. í niðurstöðum samantektar Hagfræðistofnunar um greinargerðir vegna Icesave-skuldbindinga. Samantektin var gerð að beiðni fjárlaganefndar. Þar er álit Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins gagnrýnt og sagt að ekki tekið tillit til þess að aukin skuldabyrði mun að öðru óbreyttu hafa neikvæð áhrif á hagvöxt sem aftur leiðir til verri lífskjara.

Fjárlaganefnd fór þess á leit við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin rýndi skriflega gögn fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands sem notuð voru við úttekt á málum sem tengjast svonefndum Icesave-skuldbindingum. Hagfræðistofnun hefur yfirfarið forsendurnar og lagt mat á mikilvægi breytinga í forsendum á niðurstöður. Ekki er lagt mat á aðra þætti, svo sem lögfræðileg álitaefni. Þá er einungis litið til þeirra afmörkuðu áhrifa sem Icesave-skuldbindingarnar hafa í för með sér.

Gagnrýni á álit Seðlabanka og fjármálaráðuneytis

Í niðurstöðum samantektarinnar segir að íslenska hagkerfið gangi í gegnum hremmingar sem eiga sér vart fordæmi á síðustu áratugum. Af þeim sökum sé varasamt að líta til fortíðar til að meta horfur næstu ára og óvissa sé mikil hvað varðar allar spár og útreikninga.

„Í álitum Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytis er ekki tekið tillit til þess að aukin skuldabyrði mun að öðru óbreyttu hafa neikvæð áhrif á hagvöxt sem aftur leiðir til verri lífskjara. Þau neikvæðu áhrif mætti milda með lengingum lána og skuldbreytingum. Greiðslur til lúkningar skulda er fé sem ekki verður notað til annarra hluta, s.s. í fjárfestingar eða til neyslu. Þá er ekki lagt kerfisbundið mat á þá áhættu sem skuldbindingunum fylgir. Þar sem upphæðir vegna Icesave-skuldbindinganna eru háar, jafnvel í þjóðhagslegu samhengi, og óvissan er mikil er varasamt að styðjast um of við tiltekin grunndæmi þegar meta á áhættuna,“ segir í niðurstöðum samantektarinnar.

Þá segir að sé litið til reynslu fortíðar megi ætla að hagvaxtarspár þær sem fyrir liggja séu of lágar til skamms tíma en of bjartsýnar sé litið lengra fram á veginn. Þá megi ætla að raungengi krónunnar verði hærra en gert er ráð fyrir í spám Seðlabanka og fjármálaráðuneytis.

„Erfitt er að rökstyðja að afgangur af vöruskiptum við útlönd haldist svo lengi og svo mikill sem gert er ráð fyrir í áliti Seðlabanka Íslands auk þess sem það stangast á við reynslu annarra þjóða,“ segir í samantekt Hagfræðistofnunar.

Greiðslubyrði ræðst af aðgengi að lánsfé

Hvað varðar greiðslubyrði afborgana og vaxta ræðst hún mjög af aðgengi að erlendu lánsfé á þeim tíma sem endurgreiðslurnar eiga sér stað. Hagfræðistofnun telur ólíklegt að afgangur af ríkisrekstri verði svo mikill sem gert er ráð fyrir í greinargerð fjármálaráðuneytisins. Það ætti þó ekki að koma að sök að mati Hagfræðistofnunar, verði aðgengi að fjármagni tryggt þegar fram líða stundir þar sem hægt yrði að endurfjármagna greiðslurnar. Engu að síður er ljóst að miðað við breytingar í forsendum sem ekki eru ólíklegar getur greiðslubyrði af lánunum orðið þungbær ef aðgangur að erlendum fjármagnsmörkuðum er takmarkaður á endurgreiðslutímanum.

Fólksflótti mesta áhættan

„Mesta hættan liggur í því ef efnahagshremmingar þær sem við glímum nú við verða til þess að fólk flytji úr landi í stórum stíl. Slíkt myndi minnka framleiðslu í framtíðinni og þyngja skuldabyrðina enn frekar. Reynsla fyrri ára bendir til þess að áhrif hagsveiflu á fólksflutninga séu marktæk en ekki stórvægileg. Hvort það samband helst enn er óvíst. Hvað varðar skuldbindingar vegna Icesave einar sér má ætla að áhrifin verði einhver en ekki mikil. Lausleg athugun, byggð á hagsögu síðustu áratuga, bendir til þess að fólksfjöldinn yrði um hálfu prósentu lægri en ella við lok greiðslutímans. Fólksflótti í stórum stíl vegna almennrar ótíðar þyngir skuldabyrðina hjá þeim sem eftir sitja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert