Mikilvægt að fylgjast vel með

Ungmenni senda nektarmyndir af sér sín á milli.
Ungmenni senda nektarmyndir af sér sín á milli. mbl.is/Jim Smart

Umræðan um kynferðisleg myndskilaboð send milli ungmenna er lágvær hér á landi, þrátt fyrir að slíkar sendingar séu algengar. Í Bretlandi eru yfirvöld að átta sig í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla og viðtöl við fórnarlömb slíkra sendinga. Forstjóri Barnaverndarstofu segir mikilvægt að fylgjast með því sem gerist á sviði upplýsingamiðlunar.

Bresk lögregluyfirvöld vöruðu í dag við mikilli fjölgun sendra kynferðislegra myndskilaboða (e. sexting) milli ungmenna en slíkar sendingar geta haft gríðarlega slæmar afleiðingar.  Talað er um sprengingu í slíkum sendingum en eitt af hverjum fjórum 11-18 ára ungmennum hefur fengið slík skilaboð í síma sinn eða pósthólf.

Í júní síðastliðnum lokuðu Síminn og Vodafone fyrir aðgang að vefsíðunni ringulreid.org eftir beiðnir frá ríkislögreglustjóra, Barnaverndarstofu, umboðsmanni barna, Lýðheilsustöð, SAFT o.fl. Á vefsvæðinu mátti finna gróf dæmi um neteinelti og myndir af nöktum stúlkum undir lögaldri. Í mörgum tilvikum var um að ræða ungar íslenskar stúlkur sem sent höfðu myndir af sér, s.s. til kærasta. Myndirnar dreifðust svo milli ungmenna þar til þær enduðu á síðunni.

Engar rannsóknir gerðar hér á landi

 Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir það skýrasta dæmið um að slíkar sendingar viðgangast hér á landi líkt og annars staðar. Hins vegar hafa engar rannsóknir eða kannanir verið gerðar á umfangi slíkra sendinga. „Við höfum verið meðvituð um að þetta hafi verið í gangi, en ekki er hægt að tala um að samstilltar aðgerðir hafi verið í gangi,“ segir Bragi en bætir þó við að samtökin SAFT hafi barist láti sig net- og símaöryggi barna varða. 

Bragi segir mjög mikilvægt að samfélagið, foreldrar og stofnanir sem hafa það hlutverk að sinna börnum séu meðvituð um það sem er að gerast á þessu sviði. Margmiðlunartæknin sé orðin stór þáttur af lífi ungmenna og fylgjast þurfi grannt með hvernig hún sé notuð.

Marta Kristín Hreiðarsdóttir, félagsfræðingur hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins og talsmaður Saman hópsins, segir málefnið ekki hafa verið tekið upp hjá samtökunum. Hún hafi orðið vör við slíkar sendingar, s.s. á blogginu og samskiptavefjum. Hún sagði umræðuna tímabæra og reiknar með að málið verði tekið upp hjá Saman hópnum.

Ekki náðist í verkefnastjóra SAFT við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert