Bæjarráð Akraness hefur falið starfshópi um hagræðingu og sparnað í rekstri bæjarins að ræða við fulltrúa VLFA vegna fyrirhugaðra breytinga á vinnufyrirkomulagi bæjarstarfsmanna.
Bæjarráð Akraness samþykkti í byrjun júlí margvíslegar sparnaðarleiðir fyrir bæjarsjóð. Þar á meðal eru verulegar breytingar á vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja og skólaliða sem að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness, VLFA, munu hafa umtalsverð áhrif á launakjör þessara hópa.
„Það ríkir töluverð gremja á meðal starfsmanna, en starfsmenn munu lækka samkvæmt þessum tillögum frá rúmum 10% upp í tæp 15%. Sem dæmi þá er einstaklingur sem er með 280.000 í mánaðarlaun skertur um rúmar 30.000 kr. á mánuði. Skerðing á launum starfsmanna sem ekki ná 300 þúsund krónum á mánuði er algjörlega ólíðandi og óviðunandi,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
Frá 1. október nk. verður breyting á opnunartíma íþróttamiðstöðvarinnar á Jaðarsbökkum, íþróttahússins við Vesturgötu og Bjarnalaugar. Opnunartími verður styttur um eina klukkustund virka daga og tvær klukkustundir laugardaga og sunnudaga. Lokað verður alla stórhátíðardaga og sérstaka frídaga.
Formaður VLFA sendi fyrir nokkru bæjarráði og bæjarstjórn Akraness bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur vegna sparnaðaraðgerðanna. Í þessum vinnuhópi auk bæjaryfirvalda yrðu fulltrúar þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningum við Akraneskaupstað auk trúnaðarmanna.
Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs á fimmtudag og samþykkt að fela starfshópi um hagræðingu að ræða við fulltrúa verkalýðsfélagsins.
„Þetta er ekki það sem við fórum fram á. En ég mun kalla eftir upplýsingum um hvað forstöðumenn bæjarstofnana, kennarar, starfsmenn í stjórnunarstöðum og æðstu stjórnendur bæjarins þurfa að leggja af mörkum,“ segir Vilhjálmur Birgisson.