Þurrasti júlí frá 1889

Júlímánuður var þurr og hlýr.
Júlímánuður var þurr og hlýr. Mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikil hita og þurrkatíð var á landinu í júlí, þá sérstaklega á Suðvesturlandi. Hiti var undir meðallagi inn til landsins á Austurlandi. Norðanlands snjóaði í fjöll og næturfrost varð víða á Suðurlandi, en það telst afar óvenjulegt. Gróður á Vesturlandi lét sums staðar á sjá vegna þurrkanna.

Fyrsta vika júlímánaðar var hlý um nánast allt land en eftir það kólnaði á Austurlandi og víða á hálendinu. Mikið kuldakast gerði nokkra daga seint í mánuðinum og snjóaði þá í fjöll fyrir norðan og næturfrost gerði á víða sunnanlands, nokkuð sem telst afar óvenjulegt á þessum árstíma. Frostið eyðilagði grös í kartöflugörðum og varð svo mikið tjón að sumir bændur tala um þetta sem hinar verstu náttúruhamfarir.

Meðalhitinn í Reykjavík var 12,8 stig sem er 2,2 stigum yfir meðallagi. Telst mánuðurinn vera í 3-4. sæti yfir hlýjustu júlímánuði frá því að samfelldar mælingar hófust í Reykjavík. Árið 1991 og 2007 var þessi mánuður heitari. Meðalhiti á Akureyri var 11,1 stig og er það 0,6 stigum fyrir ofan meðallag. Á Hveravöllum var meðalhitinn 8,6 stig sem er 1,6 stigum fyrir ofan meðallag.

Lítið rigndi vestan og suðvestan lands. Í Reykjavík mældist úrkoman 11,5 mm, einungis um fimmtungur meðalúrkomu fyrir júlímánuð. Er mánuðurinn þar sá þurrasti frá 1888 og 1889. Á Akureyri mældist úrkoman 30 mm, sem er um 8% undir meðallagi. Fjöldi þurrkameta féll á veðustöðvum þar sem mælingar hafa staðið yfir í 30-50 ár.

Sólin skein sérlega glatt á vestanverðu landinu. Sólsinsstundir mældust 259,4 í Reykjavík sem er 88 stundum yfir meðallagi. Ekki hafa mælst fleiri sólskinsstundir frá 1974 og situr mánuðurinn í 5.-6. sæti yfir sólríkustu júlímánuði í Reykjavík, ásamt júlí 1960. Sólríkasti mánuður sem mældur hefur verið var árið 1939 en þá mældust þær 308. Á Akureyri skein sólin í 212,2 stundir, sem er 54 stundum yfir meðallagi. Þar er mánuðurinn einnig í 5.-6. sæti yfir sólríkustu mánuði í veðursögunni. Í toppsætinu trónir árið 1929 en þá skein sólin í 239 stundir.

Hæsti hiti sumarsins mældist 26,3 stig á sjálfvirku stöðinni á Torfum í Eyjafirði og þar mældist reyndar líka hæsti hiti júlí á mannaðri stöð sama daginn, 25,6 stig. Hiti náði hvergi 20 stigum síðustu 9 daga mánaðarins.

Lægsti hitinn mældist -2,7 stig á Brú í Jökuldal, þann 24.júlí. Lægsti hiti á mannaðri stöð var svo á Torfum, -1,0 stig aðfararnótt þess 26. júlí.

Nánar á síðu Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert