Karlmaður sem ók inn í lögreglustöðina á Akranesi á sunnudagskvöldið hafði leitað til sjúkrahússins á Akranesi til að fá innlögn á geðdeild en maðurinn glímir við geðsjúkdóm. Var honum vísað frá og greip hann þá til þess að stela bifreið sem stóð við sem er staðsett á móti sjúkrahúsinu og ók sem leið lá á lögreglustöðina og inn. Fékk hann vistun á geðdeild í gær.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Akranesi kemur fram að maðurinn hafi ekið í gegnum bílskúrshurð og aftan á lögreglubifreið sem var inni í skúrnum. Lögreglubifreiðin hentist fram á við og lenti á vinnuborði sem er inni í skúrnum. Skemmdist lögreglubifreiðin bæði að framan og aftan en bifreiðin sem maðurinn ók var óökufær eftir ákeyrsluna. Bílskúrshurðin er ónýt. Mesta mildi var að enginn var við vinnu í bílskúrnum þegar maðurinn ók þar inn.
Þegar lögreglumenn handtóku manninn óskaði hann eftir vistun á lögreglustöð þar til hann fengi vistun á geðdeild. Var hann lagður inn á geðdeild daginn eftir, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.