Í júlí bárust Vinnumálastofnun 6 hópuppsagnir þar sem sagt var upp samtals 110 manns. Uppsagnirnar koma úr ýmsum greinum, tvær úr byggingariðnaði samtals 28% uppsagnanna, og svo úr fiskvinnslu, verslunargeiranum, iðnaðarstarfsemi og ferðaþjónustu.
Þessar hópuppsagnir koma til framkvæmda á tímabilinu september og fram í nóvember. Að jafnaði er um helmingi starfsmanna hjá þessum fyrirtækjum sagt upp, en í einu tilviki ná uppsagnirnar til allra starfsmanna þar sem unnið er að endurskipulagningu, að því er fram kemur á vef Vinnumálastofnunar.
Allar hópuppsagnirnar nema ein eru hjá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Ástæður uppsagnanna eru fyrst og fremst fyrirsjáanlegur samdráttur á markaði og/eða verkefnaskortur þegar líður á haustið, rekstrarerfiðleikar vegna samdráttar og endurskipulagning.
Einnig eru nefndar breyttar rekstrarforsendur tengdar gjaldþroti verkkaupa eða uppsögn samninga af hálfu viðskiptaaðila. Þrjú fyrirtæki stefna að endurráðningu hluta starfsmanna í kjölfar endurskipulagningar eða ef aðstæður á markaði breytast til batnaðar.
1.320 sagt upp í hópuppsögnum það sem af er ári
Mjög margar hópuppsagnir frá árinu 2008 komu til framkvæmda í byrjun árs 2009, eða yfir 1.000 í janúar og 1.100 í febrúar. Eftir það fór þeim mjög fækkandi og voru innan við 50 sem komu til framkvæmda í júnímánuði en nokkur fjölgun varð í júlí þegar þær voru hátt í 200 og nálægt 400 eiga að koma til framkvæmda nú í ágúst. Í september koma tæplega 300 uppsagnir til framkvæmda, en enn sem komið er hafa færri uppsagnir verið tilkynntar að komi til framkvæmda í október og nóvember.