Bresk bankarannsókn eðlileg og nauðsynleg

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. mbl.is/Ómar

„Ég get ekki séð annað en að þetta sé fyllilega eðlilegt,“ segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra spurður út í rannsókn breskrar rannsóknarstofnunar, sem hefur hafið sjálfstæða og ítarlega rannsókn á íslensku bönkunum.

Gylfi segir að þetta komi sér ekki á óvart. Það sé við því að búast að fjármálaeftirlit og aðrar stofnanir í þeim löndum sem íslensku bankarnir störfuðu hefji rannsókn á því sem fór úrskeiðis.

Serious Fraud Office, sem sérhæfir sig fjársvikamálum, hefur sett aukinn kraft í rannsóknina í kjölfar þess að gögnum um stórar áhættuskuldbindingar Kaupþings var lekið á vefsíðuna Wikileaks.org.

 „Ég geri fastlega ráð fyrir því að íslenskir eftirlitsaðilar eins og fjármálaeftirlitið eða Seðlabankinn, eða jafnvel lögreglan, sýni fullan samstarfsvilja í slíkum málum ef eftir því er óskað, og reyndar líka öfugt. Þeir óski eftir þeirri aðstoð sem hægt er að fá frá systurstofnunum erlendis við það að upplýsa mál,“ segir Gylfi.

Um flókin mál sé að ræða og því verði menn að hafa upplýsingar frá öllum viðkomandi löndum við rannsókn málsins.

Nauðsynlegt til að komast til botns í okkar málum

Gylfi segir að Fjármálaeftirlitið hér á landi sé í stöðugu sambandi við systurstofnanir í nágrannalöndunum, þ.á.m. löndunum þar sem íslenskir bankar störfuðu. „Þó ég hafi nú ekki upplýsingar um einstök samskipti þá veit ég ekki betur en það sé mjög virkt og nýtist báðum aðilum,“ segir ráðherra.

„Þegar fyrirtæki sem starfa í mörgum löndum eru til skoðunar þá er ekkert óeðlilegt við það að það sé gert í einhverju samstarfi margra aðila. Ég geri enga athugasemd við það. Og raunar held ég að það sé eiginlega nauðsynlegt til þess að við getum komist til botns í okkar málum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert